föstudagur, 20. febrúar 2004

Hver stal kökunni úr krúsinni í gær?

Í gær var nefnilega árshátíð. En áður en ég fer að þylja upp allt sem henni viðkemur vil ég þakka fyrir ótrúlegar viðtökur við skrifum fyrradagsins. Það er greinilegt að ég er ekki einn um að vera með hugsannastíflu þegar kemur að skemmtilegum lögum. En í rútunni áðan bætti ég What a Day for a Daydream með Lovin' Spoonful á listann... Jæja.

Haldið var upp í skóla klukkan að verða eitt í hávaðaroki og rigningu en samt með bros á vör. Af hverju? Nú þetta var árshátíðardagur, óháð veðri, og svo hljómaði Eels í eyrum mér og hver getur staðist það að brosa þá? Svo var hlegið að tilburðum rútubílstjórans við skemmtilega misheppnaðar tilraunir viðað opna dyrnar á rútunni og... hvaða tíð er þetta sem ég er að skrifa í? En svo hló ég líka að staðsetningu rútunnar en hún stoppaði umferð svo um munaði. Hraðspólum nú yfir tíðindalitla atburðarrás og erum við þá stödd inni á herbergi eftir nokkra biðraðaríveru á Hótel Selfoss. Við Halla herbergisfélagi keyptum okkur að borða og ég komst að því að maður á einmitt aldrei að kaupa sér að borða þegar maður er svangur. Ég keypti allt, allt of mikið. Nújæja. Bekkjarfundur var svo haldinn upp úr sjö í herbergi 314 og tilkynnist hér með að ég varð af titlinum "Bros bekkjarins" með eins atkvæðis mun. Eftir á komu tvær bekkjarsystur til mín og sögðust vera miður sín yfir að hafa ekki munað eftir mér en svona er þetta bara. Setti reyndar stemminguna fyrir kvöldið þar sem ég var einn af þermur tilnefndum fyrir Bros Kvennó 2004 en Hildur ofurstuðgella vann þann titil að ég held réttilega. Samt er ég sár. Auðvitað. Ég hefði svo viljað vinna þó ekki væri nema afsaka viðtalið við mig en þar var ég leiðinlegri en allt (var svolítið þreyttur þegar það var tekið). En jæja, ég fékk þó að fara upp á svið með fótboltaliði 4-T þar sem við vorum opinberlega titlaðir meistarar. Svo, eftir agalega misheppnað kóratriði tók ég vonandi betur heppnað söngatriði með Erni Árnasyni (þó ég held það hafi lítið heyrst í mér). O sole mio bara! Samkvæmt Ágústi var Örn bara fjandi ánægður með mig.


Svo eftir hálf mislukkaða máltíð og lystarleysi þar ofan í var haldið á herbergin í partýhug. Hann reyndist vera svo mikill að ég bara komst ekkert á ballið. Ég var bara allt of upptekinn við að skemmta mér annars staðar. Mín var víst sárt saknað af ballinu en ég skal bara reyna að bæta upp fyrir það einhvern veginn. Svo var bara mígandi hamingja og eintóm ofurstemmning hjá 4-T og ég missti af heilmiklu þar sem ég var annars staðar til að byrja með en ég kom sterkur inn í seinni hálfleik. Greddan í þessum bekk er yndisleg. Svo, eftir að hafa farið í morgunmat með Höllu klukkan átta, lögðum við okkur í tvo tíma áður en við tókum saman og fórum niður í anddyri. Þar var stemmning og hreint unaðslegt að fylgjast með mismunandi hressleika fólks. Svo var raðað í bíla og stór hluti 4-T fór og fékk sér að borða en þar sem mér var ekki boðið far heim komst ég ekki frá, þurfti að ná rútunni. Það var líka ágætt. Ég hafði tvö sæti út af fyrkr mig og ferðin heim leið eins og hendi væri veifað. Oh the wonders of mp3.

Phúahh... nú þegar ég er búinn að rumpa þessu frá mér er ég að spá í að fara í bað og horfa svo kannski á Requiem for a Dream, bara svona ef ske kynni að þið hefðuð verið að velta þessu fyrir ykkur. En fyrst vil ég koma á framfæri þökkum til Vídeónefndar fyrir frábærlega unnið starf í kring um kynningarnar og svo til Hafdísar sem ásamt Einari hippa sá um prentun á Inguera bolunum en ég er einmitt íklæddur einum slíkum þegar þetta er skrifað.

tack tack

--Drekafluga, með úfnara hár en Loðinbarði--

Engin ummæli: