sunnudagur, 28. ágúst 2005

Henngh!

Veit einhver hvar má finna upplýsingar um stærð og format á character portrait til að importa í leikina frá Black Isle? Ég er þá að tala um leiki eins og NWN og BG. Það fer agalega í taugarnar á mér að finna ekkert um þetta. VB, any forums you know of?

tack tack

--Drekafluga með sérþarfir--

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Ooh-tah

Ég nennti ekki að lita þetta meira, ekki í bili, enda kann ég það ekki. Ég er lásí þegaar kemur að litun í tölvu. Orðinn ágætur í að inka en þarf að vinna að því að lita. Hvað um það, aumingja Saga...



tack tack

--Drekafluga "..and I don't mean biscuits.."--

sunnudagur, 14. ágúst 2005

London, a place, people live here.

Jæja, eftir að hafa dundað mér í einn og hálfan tíma í að setja saman playlista til að hlusta á á meðan ég skrifa þetta, þá er ég byrjaður.

Nóttina fyrir brottför sváfum við Gunnþóra ekki nema rúma tvo tíma. Þetta stafaði hvorki af stressi né tímaskorti heldur gestagangi. Fólk er afskaplega mistregt að taka vísbendingum um að hverfa. Klukkan 5:25 vorum við svo sótt á VIP minibus bróður míns og okkur fannst við vera afar mikilvæg. Eða mér öllu heldur. Mér leið þannig. Gunnþóra var með svefngalsa alla leiðina út á völl og ég átti i fullu fangi með að vera mikilvægur með alla þessa truflun. Við flugum svo kl 7:30 og lentum kl 11:30 eftir þriggja tíma flug. Við gengum niður stiga við flugvélina og yfir steypuna inn í flugstöð en hvernig sem ég reyndi gat ég ekki ímyndað mér að ég væri Bítill eða eitthvað í þeim dúr. Svekkelsi. Við þurftum svo ekki að bíða lengi til að finna fyrir áhrifum sprengjanna Laugardaginn áður. Öll flugstöðin stöðvaðist (og allt landið frétti ég um kvöldið) í tvær mínútur í virðingarskyni við þá sem höfðu fallið eða særst. Mig dauðlangaði að sparka í tvo Austur-Evrópubúa sem flissuðu sín á milli, héldu áfram samræðum sínum og fóru að töskufæribandinu til að ná í bakpoka, allt magnað í dauðaþögninni umhverfis þá.

Í rútunni (sem var þónokkuð ódýrari en lestin en ég held ég taki lestina samt næst) til London var skilti. Á því stóð: “CCTV in operation for your personal safety and security. Ég fylltist strax mikilli öryggiskennd í þeirri vissu að ef rútan yrði sprengd mundi öryggismyndavélin taka höggið fyrir okkur farþegana. Þannig skildi ég það allavega. Við fórum svo út á Baker Street og gengum að hótelinu. Það var hægara sagt en gert þar sem Baker Street var ekki á kortinu í London túristabókinni okkar. Við sjálf, tveir lögregluþjónar og afskaplega hjálplega kona frá Sri Lanka komu okkur svo á leiðarenda. Þetta er líklega sætasta hótel sem ég hef verið á. Húsið var eldgamalt og rúmin líklega enn eldri miðað við vírana sem tóku ástfóstri við bakinu á mér. Gunnþóra fékk betra rúmið og við færðum þau svo saman. Ég gat hafst við í norðaustur horninu á mínu rúmi, á bakinu. Ef ég hélt mig innan þessara marka +/- 5cm svaf ég ágætlega. En það var ekki strax. Við fórum fyrst á afar þægilegan ítalskan veitingastað þar sem ég borðaði allt of mikinn og allt of góðan mat og gaf allt of mikið þjórfé, þetta síðasta að mati Gunnþóru. Þar fengum við okkur líka einhvern besta ís sem ég hef smakkað. Gunnþóra sofnaði svo klukkan 19:30 þannig að ég fór í göngutúr um nágrennið. Þar sá ég fyrstu MacDonalds og Burger King staðina, strax fyrsta daginn. Ég andvarpaði. Eftir að hafa þrætt hinar ýmsu götur með ekkert nema höfuðáttirnar í huganum tók ég stefnuna á Hyde Park sem, samkvæmt kortinu sem við höfðum keypt fyrr um kvöldið, átti að vera sunnan við hótelið. Kortið hjálpaði mér svo aðra leið til baka.

Gunnþóra vaknaði eftir 14 tíma svefn og ég með henni. Við létum taka af okkur passamyndir fyrir Underground vikupassa og komumst svo að því að við þurftum ekki passamyndirnar. Kerfið hafði semsagt breyst miðað við okkar upplýsingar. O jæja, hugsuðum við, þetta voru fínar myndir. Við fórum á Oxford Street og urðum vitni að frumskógi verslunargötu í heimsborg þegar útsölutíminn stóð sem hæst. Að segja að Íslendingar séu brjálaðir í verslunum er að segast ekki hafa komið til London einmitt á þessu tímabili. Við fórum samt í nokkrar búðir og í Top Shop rakst ég, bókstaflega, á Jason Flemyng. Það var kúl. Í Zöru (á maður að segja Zara..?) var svo hálfber manneska í pínlega litlu pínupilsi og með aðra geirvörtuna uppúr frjálslegum vafningi um brjóstin. Hún var eins og sígaunísk portkona af verri gerðinni. Þegar við sáum hana taldist hún líklega vera kvenmaður en ég er ekki sannfærður um að svo hafi alltaf verið. Hún gekk svo um eins og hún ætti búðina, sem gat reyndar vel verið, hvað vissi ég, og bar allt of litlar og að mér fannst illa valdar flíkur að óhuggulegum barminum sem var eins og skrúfaður á hana. Þegar við fórum út gengum við fram hjá verði sem virtist vera að biðja hana að annað hvort vinsamlega fara eða ennþá vinsamlegar kaupa eitthvað utan um sig.

Við tókum svo Undergroundið að Covent Garden og þar átum við á öðrum ítölskum stað. Afar vinalegum en með mis vinalegum mat. Gunnþóra fékk sér Tagliatelle sem ég hefði getað gert betur og er ég þó ekki sérfróður um slíkt. Við gengum svo um Leicester Square en þar í nágrenninu er allt fullt af leikhúsum og bíóum, Chinatown og Soho en þar er allt fullt af klámbúðum og strípistöðum ýmis konar. Svo fórum við heim á hótel. Undergroundið er snilld ef undan eru skilin áhrif sprenginganna og lokanir og tafir vegna þeirra. Við rákum okkur svolítið oft á þessar tilfærslur fyrstu dagana. Svona var leið okkar frá Soho heim á hótel. Leicester Square – Euston, Euston – Warren Street, Warren Street – Euston (smá mistök) Euston, fram hjá King’s Cross (þar sem við ætluðum að skipta) sem var lokuð, að Moorgate, Moorgate – Baker Street, Baker Street – Paddington. Einfalt, ha? Það er það í rauninni. Þarna vorum við bara ennþá óvön og vissum ekki hverju hafði verið lokað. Maður er ekki nema nokkrar mínútur að átta sig á strætó- og sérstaklega lestakerfinu í London.

Daginn eftir tókum við strætó að Portobello Road þar sem er nokkurra kílómetra röð af sölubásum og fólk í mörg þúsundatali. Gunnþóra talaði portúgölsku við Brasilíska fjölskyldu sem rak veitingarsaðinn sem við af tilviljun settumst inn á. Við fórum svo að því sem átti eftir að verða minn uppáhaldsstaður í London, Camden Town. Þar eru margir götumarkaðir þar sem hægt er að fá allt milli himins og jarðar. Við byrjuðum á því að ganga um Camden Lock Market, nefndann eftir skipastiganum í ánni rétt hjá og The Stables, nefnt eftir, ja, hesthúsum býst ég við. Þar var líka gamalt hús með skiltinu The Horse Hospital. Stemmning. Þarna var ógrynni af dóti sem mig langaði í en hefði átt í stökustu vandræðum með að flytja heim sökum stærðar og umfangs en ekki síst magns. Mig langaði í allt. Við eyddum deginum í mörkuðunum og borðuðum svo á Ask, sem ég held að sé enn einn ítalskur staður og fengum besta hvítlauksbrauð sem við höfum smakkað í forrétt. Ekkert frásagnarvert svosem en mig langaði að koma því að.

Næsta dag, sunnudag, gengum við um Oxford, Regent og Carnaby Street. Svo fórum við að Picadilly Circus og gengum aftur yfir Leicester Square en þar var verið að forsýna Charlie and the Chocolate Factory og torgið skreytt sem sælgætisland. Hundruð manns biðu við nýuppsett grindverk til að sjá Johnny Depp. Ef öðruvísi hefði staðið á hefði ég ef til vill gert það líka. Ég er ekki viss, en ég held að við höfum líka borðað á ítölskum stað þennan dag.

Mánudagur. Við vöknuðum milli níu og tíu og byrjuðum daginn á því að kíkja suður fyrir á. Við The London Eye var ekki styttri en 250 manna röð svo við létum okkur nægja að horfa á risavaxið hjólið og segja: “Ja, bitte nú. Hjólið er risavaxið.” Við létum okkur líka nægja að horfa á útveggi safnanna og sögulegu bygginganna og segja: “Jahá, það hlýtur að vera margt fallegt að sjá þarna inni.” Við ákváðum að skoða það allt saman seinna. Eftir tuttugu ár kannski. Það var ansi flott að ganga yfir Westminster brúnna og horfa á Big Ben og meðflygjandi borgarlag. Mér leið eins og ég stæði inni í postkorti. Við norðurendann á brúnni stoppaði okkur kona, rétti okkur illa gerða gervirós, búna til úr álpappír og rauðum, rytjulegum pappa og bað okkur að styrkja börnin, fátæku börnin. Þau lifðu á götunum og hún væri því, ásamt fleirum að mér skildist, að safna pening til að koma þeim í skóla. Hún sagði að við litum út eins og stórstjörnur sem ég tel ekki vera tilviljun því allavega mér leið einmitt þannig þennan dag. Verandi einstaklega hégómlegur gaf ég henni allt klinkið mitt. Við röltum svo yfir Trafalgar Square, um hluta Covent Garden sem við höfðum ekki séð áður og kíktum svo á Tottenham Court Road. Ef einhver vill kaupa raftæki í London þá á sá hinn sami að fara á þessa götu. Þar úir og grúir af bókstaflega öllu sem hægt er að stinga í samband og ég dauðsé eftir að hafa ekki keypt þar teikniborð við tölvuna. Dagurinn var kláraður á netcafé og svo á rólegheitum á hótelherberginu. Systir Gunnþóru hringdi í mig þegar ég var nýsofnaður og vakti mig svo svakalega að ég sofnaði ekki aftur fyrr en seint um nóttina. Í millitíðinni sá ég endursýndan Top Gear þáttinn sem tekinn var upp á Íslandi og fannst kúl. Fyrir þá sem það ekki vita er Top Gear stærsti bílaþáttur í Bretlandi. Það er annars alveg magnað hvað ég hef gaman að bresku sjónvarpi. Mér finnst það bara snilld.

Þriðjudagur, dagur poka, dagur verslunnar, hinn mikli dagur ostapizzu. Ég lá í rúminu í 40 mínútur á meðan ég beið eftir að Gunnþóra vaknaði. Fór síðan í sturtu og hlustaði svo á hana af einlægri athygli segja mér frá draumnum liðinnar nætur, ennþá hálf sofandi. Þetta var eiginlega þægilegasti dagurinn úti, mér einhvern veginn leið best. Við fórum aftur á Tottenham Court Road þar sem ég keypti mér loksins græjur í bílinn. Ég gæti farið út í samtal mín og sölumannsins, hvaða magnara og bassakeilur þeir áttu og áttu ekki og svo framvegis en held að fáir nenntu að lesa sig í gegn um það. Ég ætla samt að segja frá því að magnarinn sem ég keypti mér úti kostaði u.þ.b. 9.000kr þar en fæst á 25.000kr hérna heima. Svakalegt, alveg svakalegt. Eftir að hafa komið græjunum af okkur á hótelið eyddum við restinni af deginum í Camden Town í Legally Blonde stíl, ef svo má segja. Við (aðallega ég) vorum svo hlaðin pokum að við (allavega ég) höfðum varla reynt slíkt áður. Ég keypti mér líka skó. Strákurinn sem seldi mér skóna hélt að ég væri frá tilteknu hverfi í London, ég væri með þann talanda. Það fannst mér gaman. Höfðaði til hégómans. Ef hann hefði beðið mig um pening til að stofna skóla hefði ég áræðanlega gefið honum allt klinkið mitt.

Næsti dagur fór í sjampókaup, kaup á LotR Risk og rölt. Ítalskur veitingahúseigandi, sem var fyrst viss um að við værum austur-evrópsk, talaði lengi vð okkur um inn- og útflutning, Sikiley, fisk og Finnlendinga. Við borðuðum svo á stað sem ég mundi mæla með að allir sem færu til London kæmu á, ekki út af matnum því hann var vondur og ekki út af verðinu því það var svívirðilegt, heldur vegna þess hversu skemmtilegur staðurinn var. Þetta var eins og að sitja inni í leikmunaherbergi stórs leikhúss og óhóflega stórri arabískri setustofu, bæði á sama tíma. Verst bara að ég man ekki hvað hann hét. Þetta kvöld sá ég svo Kate Hudson. Það var forsýning á The Skeleton Key og ég er nokkuð viss um að konan sem var umkringd myndavélablossum á meðan við Gunnþóra biðum í Ben & Jerry’s röðinni, á að giska 100 – 120 metra í burtu, hafi verið Kate Hudson. Ég hugsaði mig um í smá stund og ályktaði svo að ég væri ekki ‘starstruck’ (merkilegt að það sé til orð yfir þetta). Kannski þarf maður að vera í innan við 100 metra radíus.

Á fimmtudagsmorgun gripum við töskurnar sem við höfðum af reglusemi pakkað í kvöldið áður og fórum út á flugvöll. Við flugum heim, við vorum stoppuð í tollinum og farangur okkar skoðaður í krók og kring. Það var allt í góðu, við gengum út úr Leifsstöð og ævintýrið var búið. Þetta var gaman og ég hlakka til að gera eitthvað þessu líkt aftur. Mér líkar vel við þessa borg. Það sem kom mér mest á óvart er hversu rosalegt magn af innflytjendum er í London. Einu sinni á allri vikunni í öllum þessum innkaupum, var ég afgreiddur af því sem manni þætti vera ‘týpískur breti’. Ég átti von á margs konar þjóðerni en ekki þessu. Jæja, til að enda þetta, þá er hér ein auðveld spurning. Hvaða mynd?

---

London.

London?

London.

London?

Yes, London! You know, fish, chips, cup’o tea. Bad food, worse weather, Mary fucking Poppins. London.

---

tack tack

ps. Allar innsláttarvillur eru ætlaðar sem lestrar- og athyglisæfing og eru alfarið á ábyrgð lesanda.

--Drekafluga ferðalangur--

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Argh! My squeedilly spootch!

Ég vaknaði með verk í handarkrikanum. Eiginlega eins og sinadrátt. Afar undarlegt. Ég hringdi út að Laugarási klukkan níu en þar er hægt að ná í lækni í síma milli níu og hálf tíu á morgnana. Lífsleið eldri kona svaraði, spurði hvað ég vildi, sagði að það væri á tali hjá lækninum og spurði hvort ég vildi bíða og skellti síðan í eyrað á mér hræðilega óljúfum tónum, aðvörunarlaust. Nokkrum mínútum seinna, inni í því sem ég gat aðeins giskað á sem miðjuna á laginu, því ekki var ég farinn að heyra laglínu ennþá, klippti hún á tónaflóðið og spurði: "Þú ert að bíða eftir..?" Mig langaði að segja leigubíl eða réttri staðsetningu stjarnanna en sagði hikandi "Umm... lækni?" "Já." sagði hún og aftur kom lagið. Ég var ekki viss um hvort ég hefði svarað rétt. Svo var mér gefið samband við lækni og það er víst ekkert hægt að gera við torlýsanlegum sinadrætti í hægri handarkrika. Bara bíða, teygja og sjá. Enginn botn í þessari færslu, bara vangaveltur um mig sem líffræðiafbrigði.

tack tack

--Drekafluga, what bloody albatross?--