miðvikudagur, 28. desember 2005

Desemberlok (the lid of December)

Ég vildi glaður skrifa eitthvað, koma með silfruð orð og fagurlega samsettar setningar en ég held ég geti og geri það ekki. Ég sit á barstólnum mínum í vinnunni og kemst ekki mikið nær því að vera gjörsamlega og með öllu andlaus. Fyrir jól hafði mér dottið ýmislegt í hug sem skemmtilegt væri að skrifa um en hvað það var man ég ekki. Ætli ég vilji ekki nota tækifærið og óska öllum gleðilegs nýs árs og ég vona að þið hafið haft, og munuð hafa það gott um jólin. Vonandi eruð þið enn í fríi. Þeir sem áttu von á jólakorti frá mér eða Gunnþóru og urðu ef til vill fyrir vonbrigðum skulu ekkert vera sárir. Við erum að hugsa um janúar eða febrúarkort í fullri alvöru. Allavega ég. Kannski það gerist ásamt öllu því sem ég hef trassað að gera undanfarna mánuði. Kannski. Mögulega. En ég á að vera að vinna. Úps.

tack tack

--eftirjólaDrekafluga--

laugardagur, 17. desember 2005

"Ég hef pappírsverslun"

"Það er engin afsökun." Reyndar hef ég ekki pappírsverslun enda eru þetta ekki mín orð heldur þýðing Karls Ísfeld á orðum Jaroslav Hasek. En nóg um það. Ég held ég sé sá eini, fyrir utan systur mína og móður, sem fer inn á þessa síðu sem hefur lesið um Góða dátann Svejk eftir fyrrnefndan höfund. Reyndar get ég ekki verið viss um það þar sem ég veit ekki með vissu hverjir hafa lesið bókina en ég veit heldur ekki hver fer inn á síðuna. Ooh-tah. Hef ekki höggmynd um það. Ég gæti sjálfsagt staðið í því og er reyndar svolítið hissa á sjálfum mér fyrir að hafa ekki athugað það að minnsta kosti einhvern tíman áður en svona er þetta. Oft verð ég undrandi á þeim fjölda sem virðist líta hér við á degi hverjum en grunur minn að eirðarlausir einstaklingar geri slíkt oft á dag hefur nýlega verið staðfestur. Það eru ógrynni upplýsinga sem liggja í jafn einföldum hlutum og ip-tölum. Kom mér eiginlega á óvart. Samt er ekki hægt að treysta á hvaða aðferð sem er. Eftir athugun átti sama tala að vera annars vegar staðsett í vesturbænum og hins vegar í Amsterdam. Sama tala. Heimsóknartalan er semsagt aðeins á skjön við fólksfjöldann, vægt til orða tekið. Ég veit ekki hvort ég gæti frekar látið stíga mér til höfuðs, að 100 manns kíktu einu sinni á dag eða 10 manns kíktu tíu sinnum á dag. Samt held ég að ég kynni betur að meta þessa hundrað.

Annars er ég þessa dagana að velta fyrir mér hvernig ég geti farið að hlakka til jólanna og hvað ég ætti að læra næsta haust. Ef ég læri næsta haust. Á eftir að gera það upp við mig líka. Í fyrsta lagi verð ég að taka tillit til fleiri en sjálfs mín og þá get ég t.d. ekki stokkið í skóla í útlöndum (Canada, Scotland, Canada). Svo veit ég ekki enn hvað ég vildi læra. Grafíska hönnun eða iðnhönnun? Húsasmíði eða arkitektúr? Ísland, Danmörk, Skotland, Kanada? Ég hef meir að segja íhugað Ástralíu. Ég veit bara að mig langar að nota hendurnar. Eins og Jimmy sagði í myndinni Two Hands, "I'm good with me hands." Og það er ég held ég líka.

tack tack

--sko, Drekafluga hefur hripað--

miðvikudagur, 14. desember 2005

Ljóshærður engill, þakinn koppafeiti

Clio litli er veikur. Ég hef aðstoðað mág minn við að laga hann síðustu tvö kvöld og hann átti að hafa náð sér seint í gærkvöldi. Svo var hins vegar ekki. Ég verð semsagt að láta franska eðalvagninn renna í gang þar sem startarinn virðist nú vera illa farinn og úr lagi genginn eftir 13 ára notkun hjá rallakandi ellilífeyrisþega og svo ljúfa 9 mánaða meðferð hjá undirrituðum og kærustu. Ég fór samt á honum í vinnuna í morgun. Lagði á bílastæðinu við Borgartún 30, en þar er á að giska 0,8% halli. Ræsitilraunir klukkan rúmlega fimm enduðu þannig að ég ýtti bílnum skáhalt upp bílastæðið og lét hann svo renna í gang aftur á bak. Það gekk ágætlega. Það var hins vegar verra að drepa á bílnum í kæruleysi á vinstri akrein Kringlumýrarbrautarinnar, nokkra metra frá Háaleitisbraut. Ég var ráðalaus. Ökumenn tóku ekki eftir hazard ljósunum fyrr en þeir voru komnir að mér svo ég gat ekki fært bílinn á nokkurn hátt. Ákvað þess vegna að bíða til svona hálf tólf þegar umferðin yrði minni. Fólk fór fram fyrir mig báðum megin en ég freistaði þess þó, eftir svona 10 mínútna kyrrstöðu að mjaka bílnum yfir á beygjuakreinina vinstra megin við mig. Vegna óhóflegs magns hálfvita reyndist þetta erfitt. En allt í einu birti yfir, fínstilltir barnakórar sungu og skítugur Suzuki Sidekick, hóflega breyttur, rann upp grasið sem aðskildi akreinarnar. Ljóshærður strákur, í kring um tvítugt og að því er virtist nýlega skriðinn undan vélarhlíf eigin bíls, stökk út og skokkaði til mín. Hann spurði lítillega út í vandræði mín og svo hvað ég vildi gera. Hálfri mínútu seinna vorum við Clio komnir hálfir upp á grasið. Strákurinn ýtti svo á eftir bílnum niður brekkuna og hann rauk í gang eftir fáeina metra. Ég fór út og tók í höndina á honum, brosandi hringinn. "Ég þoli ekki þegar fólk bara flautar og keyrir fram hjá." sagði hann og hvarf ásamt kórunum og fallega tónuðu ljósaskýi. Stundum bætir einn öðlingur upp fyrir þúsund hálfvita.

tack tack

--þreytt en þakklát Drekafluga--

laugardagur, 10. desember 2005

Ísland! Best í heimi!



Til hamingju Unnur.

Einmitt þegar ég er að verða sáttur við heiminn og mig þá gerist eitthvað svona. Ég fæ stundum köst, ef svo má segja. Langar óstjórnlega að verða eitthvað, ekki bara einhver. Þess á milli, og bara yfirleitt, er ég sáttur við að vera sáttur. Lifa góðu lífi, umkringdur ástvinum, vinum og fjölskyldu. Ég er oft svo hamingjusamur með einmitt þetta að það er nánast of mikið. En víkjum þá aftur að Unni okkar (já, hún er orðin okkar). Ég hélt ekki með henni í keppninni hérna heima. Fannst Ingunn miklu sætari. En nú er Unnur orðin alþjóðleg stjarna. Ungfrú Heimur. Og þá fæ ég þessa tilfinningu aftur. Ég hef reyndar ekki hugsað mér að taka þátt í fegurðarsamkeppnum en mig langar samt að verða eitthvað merkilegt. Athyglisýkin ryðst upp á yfirborðið og öskrar að hverjum þeim sem vill hlusta (sem er bara ég) að nú gangi þetta ekki lengur. Frægð eða dauði. Innan skamms kemur síðan rödd skynseminar og drekkir athyglisýkinni í geymasýru svo ég verð bara leiður á endanum. Mig langar bara að gleyma þessu öllu saman en samt ekki. So what I'd like for Christmas is a gift certificate, good at any hospital, for a pre-frontal labotomy. Hmm? En samt ekki.

tack tack

--Drekafluga, líkt og föstudaginn 13. ágúst 2004--

föstudagur, 2. desember 2005

Fneh

Fyrir nokkrun dögum fékk ég frábæra hugmynd. Mér fannst hún bara fjandi góð. Ég ætlaði að gera jóladagatal. Mini-útgáfu, s.s. annan hvern dag. Ég er ekki svo veruleikafirrtur að halda að ég gæti splæst einhverju út á hverjum degi til jóla með jafn litlum undirbúningi. Hins vegar virðist sem ég hafi eytt upp hugmyndakvótanum í þessa einu hugmynd því ég hef ekki eina einustu hugmynd um hvað ég á að gera. Það er hægt að útfæra svona lagað á margan hátt, ég hefði líklega valið sögu, hógvært myndskreytta. En sögu um hvað? Ég held það endi með því að ég gefi út janúardagatal í tilefni... umm, nýs árs. Tillögur eru líka vel þegnar. Eða þvegnar. *andvarp* Ég er andlaus. Held ég horfi á Circle með Eddie Izzard. Eða eitthvað með Ricky Gervais. ... *andvarp* Good tie.

Já, P.S. ég keypti miða á þetta. Nokkuð kúl bara. Því miður seldist upp í stúku á 4 mínútum en við Gunnþóra verðum þó þarna. Lag dagsins í dag er svo My Delusions með Ampop.

tack tack

--Drekafluga, 1,47gb--