sunnudagur, 24. desember 2006

Gleðileg jól

Ég var að fletta eftir jólamyndum á netinu, rakst á danskt nisse-pige
dagatal og gat ekki á mér setið. Hafið það gott um hátíðarnar



tack tack

--Drekafluga jóladrengur--

miðvikudagur, 20. desember 2006

Ferðalok - Frá Vancouver til Íslands

Jæja, það er löngu kominn tími á þetta.

Á Alaska Air flugmiðanum frá San Francisco til Vancouver stóð Erlingsdottir/Gunnthor. Þetta var ekki í fyrsta skipti á ferð okkar sem Gunnþóra var karlmannsgerð á þennan hátt en mér þótti það alltaf jafn fyndið. Ég vann í happdrættinu og var vísað inn í sprengjuleitarklefa þar sem lofti var blásið um mig í tölvuvæddri leit að sprengiefnaleifum og mér fannst það bara gaman. Við kvöddum San Francisco með bros á vör og var það að stórum hluta til flugfreyjunum að þakka. Það er stór munur á bandarísku og kanadísku fólki og flugfreyjur eru engin undantekning. Í stað þess að þylja öryggisreglurnar utanbókar, þurrt og persónusneytt, þá notuðu þær steningar eins og “It’s a good idea to put yours on before helping others” og áttu þá við súrefnisgrímurnar og “...please refrain from smoking in the bathroom because we do have loud and noisy smoke detectors...”. Algjörlega slakar og grúví. Þetta yndislega viðhorf gerði það að verkum að við hlökkuðum ennþá meira til að upplifa Kanada.

Vancouver stóð algjörlega undir væntingum. Borgin er svo græn, fjöllin í kring svo falleg og fólkið svo almennilegt. Svo voru reykingar á veitingastöðum líka bannaðar þar. Yay. Líkt og í San Francisco eru rafmagnsstrætóar algeng sjón en í stað sporvagna var skytrain, lest sem fer eftir teinum sem haldið er uppi af háum stöplum. Við gistum fyrir hér um bil ekki neitt á tveimur hostelum (ég á enn eftir að finna betri íslenskun á orðinu “hostel” en “farfuglaheimili”) í miðbænum, umkringd veitingastöðum eins og Fatburger, the Last Great Hamburger Stand, Death by Chocolate, ótal indverskum og grískum stöðum og svo lélegs diner þar sem þjóninum tókst að græta Gunnþóru með dónaskap. Það var líklega eini hrokafulli kanadamaðurinn sem við hittum því fyrir utan hann vildu allir allt fyrir mann gera.

Þessi borg er líka full af skemmtilegum búðum. Gunnþóra gat loks sleppt af sér beislinu í fatakaupum og keypti eina fjóra kjóla held ég, þar af þrjá í kínahverfinu, sem þó var ekki svipur hjá sjón miðað við kínahverfið í SF. Uppáhalds búðin mín var Dragonspace á Granville Island. Mig langaði í svo gott sem allt þar inni og á fagurlega máluðum dyrunum stóð eftirfarandi á bókrollu: “If you foolishly dare to consume within this store victuals or beverages, we will feed both them and you to the dragons. The staff appreciate your cooperation. However, the dragons are always hungry. Thank you.” Frábært. Hattabúðin á sama stað var líka flott og við keyptum okkur hvort sinn hattinn. The Emily Carr Institute of Art and Design var hins vegar ekki það sem ég hafði vonast eftir og ég sé ekki fram á að sækja um inngöngu þar.

Þar sem við sátum í flugvélinni og biðum eftir flugtaki heyrðist stutt ískur í hljóðkerfinu og svo afsakaði yfirflugfreyjan töfina. Það hafði kviknað í einu farangursfæribandinu og því þyrfti að fara yfir skemmdir. Við litum út um gluggann og sáum þó nokkra slökkviliðsbíla og menn í skærum búningum. Milli þeirra runnu froðufylltir lækir, búnir að vinna á eldinum. Eins og innfæddir ypptum við öxlum og héldum áframa að spjalla við konuna sem sat við hliðina á okkur en hún var að fara að heimsækja son sinn í Montréal. Við vorum hins vegar að fara að heimsækja vinkonur okkar, Marie og Véro, en það kom ekki í ljós fyrr en við vorum lent að misskilningur í samskiptum varð til að við höfðum ekki hugmynd um hvar við ætluðum að hittast. “Berri” var þá ekki staður innan flugvallarins eins og við héldum heldur gata inni í miðri borg. Við andvörpuðum, keyptum rútumiða og vorum glöð að sjá jafn ringlað fólk og okkur í sætunum í kring. Við hittum Marie, Véro, David, Auði og Sébastian á endanum og það var frábært að hanga með þeim aftur. Við borðuðum crépes á hverjum degi á stað við hliðina á Café Starbuck Coffee, því allt er bæði á frönsku og ensku þarna. Þegar við komum til borgarinnar var síðasta vika sem enn var löglegt að reykja inni á skemmtistöðum og var fólk farið að venja sig við það. Og það var gott. Við gengum meira en góðu hófi gegnir, héldum grillveislu, átum á japönskum live-cooking stað og hlógum og hlógum. Ég keypti líka pínulítið hjólabretti sem hafði vafasamt notagildi en átti samt eftir að bjarga okkur það sem eftir var ferðarinnar.

New York byrjaði ekki vel. Fjórða taskan, sú sem við höfðum keypt í Pais í Guatemala hafði hlotið illa meðferð hjá American Airlines og var ekki með nema einu hjóli. En hjólabretti hefur fjögur hjól og í öllum flutningum eftir þetta sat þessi taska ofan á hjólabrettinu. New York búar eru frábrugðnir öðrum bandaríkjamönnum. Ég held að það sé svona á þessu svæði en ég get ekki dæmt um t.d. Boston eða Washington þar sem ég hef ekki komið þangað en ég held að það sé svipað. Þar sem við Gunnþóra biðum eftir neðanjarðarlestinni veltum við fyrir okkur hvernig við gætum komið farangrinum og okkur inn í lestina á sem stystum tíma og án þess að skaða nokkurn. Við vorum enn hugsi þegar lestin kom og dyrnar opnuðust. Við færðum okkur og töskurnar til hliðar á meðan fólk steig út og hentum töskunum svo inn einni af annarri. Stórvaxin svört kona, nýstigin út úr lestinni sneri sér strax við og hjálpaði okkur og spurði þegar dyrnar voru í þann mund að lokast hvort allt væri komið. Við rétt náðum að þakka henni áður en lestin rykktist af stað. Í lestinni var fólk líka hjálpsamt og ég komst að því að ég hafði lesið rétt á lestakortið og við vorum á leið í rétta átt. Gleði gleði. Við hentumst svo úr lestinni, drógum byrðarnar upp 30 - 40 tröppur og stóðum á W 34st á Manhattan, einni götu fyrir norðan Madison Square Garden. Við töldum hvert skref sem við gengum niður 8th Avenue í átt að Manhattan Inn Hostel sem var fjórum götum neðar. Þegar við vorum rétt hálfnuð komu að okkur tvær eldri konur sem lýstu áhyggjum og undrun yfir hversu klyfjuð við værum og spurðu hvort við værum á langferð. Ég gaf þeim andstutta lýsingu á ferðinni en þegar ég sagði að við værum frá Íslandi sögðu þær, með svolítilli undrun: “But you have a nice British accent.” Það glæddist bros innra með mér en ég var of uppgefinn til að útvarpa því. Við kvöddum konurnar og Gunnþóra og ég komumst á náttstað okkar í New York tveimur götum síðar. Þar bárum við töskurnar upp tvær hæðir eftir þröngum stigum og þrengri göngum. Það var yndislegt að komast í sturtu.

Daginn eftir sáum við hvað við vorum vel staðsett innan borgarinnar. Broadway í þriggja mínútna fjarlægð, Empire State nokkrum götum ofar og Madison Square Park og Flatiron byggingin nokkrum götum neðar. Það var gaman að sjá hana. Minnti mig á Matlock. Við komumst líka fljótt að því að það er enginn fataskattur í New York. Meir að segja ég, sem yfirleitt hef ókarlmannlega orku til búðarráps, örmagnaðist undir fatahrúgunni frá Gunnþóru. Fram hjá okkur leið stærsti leigubílafloti í heimi, við átum á besta mexíkanska stað í heimi, Chipotle, á götunni hitti ég og keypti disk af mest upprennandi rappara í heimi og við hlupum og keyptum okkur þriggja dollara regnhlíf fyrir mestu rigningarskúr í heimi. Þetta er þannig staður. Ítalska hverfið er svolítið skemmtilegt en ekkert Kínahverfi stenst samanburð við það í San Francisco. Við komumst samt ekki í gegn um það án þess að vera þröngvað í punktanudd úti á miðri götu og borguðum tíu dollara hvort, plús þjórfé auðvitað. En þetta er bara hluti af upplifuninni. Við fórum líka í raunverulega stærstu búð í heimi, en það er Macy’s á horni W 34 st og Broadway. Þetta eru átta risahæðir og mér fannst eiginlega ekkert varið í neina þeirra. Svo komumst við að því að ekki eru allir New York búar hjálpsamir og umburðarlyndir. Svo virðist sem hyskið safnist saman og haldi sig í verslun Forever 21 en þar sá ég líka einu sinni enn hvað bandaríkjamenn eru óþolandi spéhræddir. Mér, sem eina karlmanninum sem virtist þurfa að máta eitthvað, var vísað á kompu sem var falin á bak við málningarstiga og nokkur borð full af drasli því ég mátti ekki máta á sömu hæð og konur. Ja svei.

Ekki gátum við farið frá New York án þess að fara í leikhús á Broadway. Eftir að hafa skoðað miðaverð og metið kosti þess og galla að annað hvort selja úr okkur nýra til að eiga fyrir miða eða sitja í næstu byggingu við sýningu og nota kíki ákváðum við að reyna fyrir okkur í miðahappdrætti á Wicked. Flest leikhúsin hafa það nefnilega fyrir reglu að selja ekki miða á fremsta bekk heldur leyfa þeim sem hefðu kannski ekki efni á að fara á sýningu að vinna miðarétt í happdrætti og kaupa þá á aðeins 25 dollara í stað 110 – 140 dollara. Við unnum ekki miða en ákváðum að fara næsta dag og reyna aftur og viti menn, á lýtalítilli íslensku var lesið upp nafnið Gúdmúndúr Valúr. Ég túlkaði það sem mitt eigið, steig fram og keypti tvo miða. Tveimur og hálfum tíma síðar sátum við á fremsta bekk, agndofa yfir sjónarspilinu og létum hvern einasta tón flæða í gegn um okkur. Það var líka gaman að sjá fólk sem maður hafði bara áður séð í myndum eða sjónvarpi. Fyrir þá sem ekki vita þá er söngleikurinn Wicked byggður á bók eftir Gregory Maguire og fjallar um það sem gerðist í Oz áður en Dórótea kom til sögunnar. Eftir sýninguna sagðist Gunnþóra hafa gert upp hug sinn, hún ætlaði að verða galdranorn þegar hún yrði stór.

Þetta sama kvöld stálum við sjónvarpi. Það kann að hljóma undarlega en á þessu er einföld skýring. Á meðan dvölinni stóð færðum við okkur um herbergi og í því seinna var sjónvarpið úr sér gengið. Þar sem enginn var í herberginu við hliðina og þjónustustúlkan (sem talaði enga ensku en blessunarlega skildum við spænsku hvors annars) hafði skilið eftir opið þangað inn á meðan hún kláraði að þrífa ákváðum við að bæta úr ástandinu. Það tók ekki nema eina og hálfa mínútu, eftir smá undirbúning að skipta á tækjum og tengja þau og munurinn var erfiðisins virði. Eftir nokkra mjög ánægjulega daga í New York stoppuðum við svo leigubíl, eftir nokkrar tilraunir því við vorum með of mikinn farangur fyrir flesta, fórum á Grand Central Terminal og tókum rútu að flugvellinum. Við vorum á leið að síðasta áfangastað fyrir heimkomu til Íslands, London.

Í flugvélum Aerlingus eru töluð tvö tungumál. Annars vegar enska og hins vegar gallíska. Ég féll kylliflatur fyrir gallískunni og hef sjaldan heyrt mál sem mér finnst jafn heillandi. Ég fíla líka íra. Við millilentum í Shannon og tókum aðra vél þaðan til London en klósettin á flugvellinum voru merkt Ladies og Gents. Svo frjálslegt. Ég brosti og leið afskaplega vel af evróputilfinningunni sem ég fékk. Við lentum svo á Heathrow, sem er afar þægilegt því Undergroundið liggur þaðan og beint inn í borgina. Þegar við vorum að klífa stigana á Paddington stöðinni brotnaði haldfangið af áður brotnu hjólabrettatöskunni og við ákváðum endanlega að þetta yrði taskan sem við skildum eftir. Við urðum að skilja eftir eina tösku hvort eð er því flugreglugerðir innan evrópu eru heimskulegar. Þess má geta að við fórum út með 30kg en komum heim með 110. Bryndís, litla systir Gunnþóru, flaug svo út og var með okkur þessa daga í London og var kærkomið burðardýr á heimleiðinni. Við fórum í Camden, Madame Tussauds, London Eye, borðuðum indverskan, gengum um garða og gáfum íkornum. Þessir síðustu dagar í ferðinni voru fullkomnir, að því undanskildu að við Gunnþóra gátum ekki sofið almennilega því við deildum frekar óþægilegu og litlu rúmi á meðan Bryndís svaf ein í sínu. Við smygluðum henni nefnilega inn á hótelið og vorum því bara með tvö lítil rúm. En það var gott að vera í kunnuglegu umhverfi og gíra sig aðeins niður. Löngu ferðalagi var að ljúka en við vorum strax farin að huga að því næsta. Það verður þó bara að koma í ljós hvenær við komumst í það.

tack tack

--Drekafluga ferðalangur--

mánudagur, 4. desember 2006

A blog is due

For it is over a fortnight since my last one. I accidentally wrote "A bog is due", pondered a bit about keeping it that way but in the end felt it was way to swampy. Now, what's happened since last time? Well, I'm making far more keyboard errors but the most obvious difference is that I'm writing this in a whole different language and have no idea why. Bruises are new as well, albeit not as obvious. It seems most of my injuries heal quickly, probably because of my kinship with Wolverine, and most of them don't even show which has it's pros and cons. For one thing I don't have a lot of visual proof to spontaneously trigger sympathy but on the other hand my skin remains non-purple. Which is good. As to the reason of said injuries, and I think it's worth mentioning that they are all very manly but not to serious, it is because for the last 9 days Rimmugygur has been under the command of Phil Burthem. Phil Burthem kicks royal ass and is pretty much as elite a melee weapon fighter as there can be now a days. Under his rigorous training I have been pelted with all sorts of weaponry but without the maiming and bloodshed that might occur under such circumstances. I live and stand (reasonably) strong. And that was pretty much the point of this post, to show that I am alive. Seems that my later posts mainly revolve around that. And now I'm out of time. Hmm.

tack tack

--Drekafluga, off--