fimmtudagur, 8. apríl 2004

Úr hugarfylgsnum áhorfenda

Klukkuna vantar núna 13 mínútur í The Drew Carey Show og verður þetta því líklega skrifað í tveimur hlutum. Undanfarið hefur tilfinningalíf mitt verið í masókistafíling og níðst á sjáfu sér og er því ekkert nema gott fyrir mig að hlæja svolítið að einum að mínum uppáhaldsþáttum. Ég á mér ekki marga uppáhaldsþætti, þ.e.a.s. það eru ekki margir sjónvarpsþættir sem ég vildi helst ekki vera án. Svo illa vill til að uppáhaldsþáttur minn, Who’s Line Is it Anyway, er á Stöð 3 og því handan minnar seilingar og er það miður. Gæðasjóvarpsefni er nefnilega ekki allt of algengt, hvort sem það er hérlendis eða erlendis. Þættir eins og Yes Dear og The King of Queens svo ég nefni dæmi, finnst mér afar þunnildislegir þó sá fyrrnefndi sé öllu verri. Það var þannig áður fyrr að til voru sjónvarpsþættir og svo Sjónvarpsþættir. Þættir sem komu manni til að hlæja og engjast skælbrosandi með tárin niður brosherta vangana. Núna eru þeir ekki margir. Vissulega eru margir þættir sem flokkast sem gamanþættir en af þeim er afar magurt hlutfall sem virkilega framkalla sannan hlátur.

Hefst nú seinni hluti þessara skrifa og ég nenni ómögulega að tala meira um gamanþætti. Hvorki ég né bróðir minn sáum The Drew Carey Show þar sem öll sjónvörp í húsinu voru óhagganlega stillt á RÚV. Aðrir fjölskyldumeðlimir ríghéldu í fjarstýringarnar svo mitt innra sjálf lamdi sér utan í vegg og datt svo viljandi á hálum sundlaugarbakka og væri nú marandi í hálfu kafi ef ekki væri fyrir bróður minn. Við erum fyndnir á hátt sem enginn annar fær skilið. Okkur finnst að við ættum að skrifa teiknimyndir og það er alls ekki fráleitt að það verði að veruleika. Mig hefur t.d. oft langað að taka upp spunaspilun okkar sem fer (oftar en ekki) út í tóma vitleysu og hlátursköst því bara þar er efni í heila seríu sem mætti skipta út fyrir einhvern þessara leiðindaþátta sem sjónvarpsstöðvar bjóða upp á fyrir börn. Það hefur marg sýnt sig að Norðmenn, Svíar og Danir eru með öllu ófærir um framleiðslu barnaefnis og þennan veikleika ætti að vera auðvelt að nýta sér. Hah! Skemmtilegasta barnaefnið er það sem fullorðnir hafa líka gaman af. Cow & Chicken eru t.d. snilld, þó auðvitað séu ekki allir á sama máli þar um, en á toppnum tróna þættir eins og Grímur og Gæsamamma og svo The Angry Beavers. (ég endurtek núna það sem ég skrifaði hérna um daginn: ef einhver getur bent mér á hvar hægt er að nálgast þætti með The Angry Beavers mun viðkomandi vera ríkulega launað) Slíkir þættir þyrftu ekki að vera svo erfiðir í framleiðslu og ég vona að við getum gert þetta að veruleika einn góðan veðurdag. Bróðir minn sá svo teiknimynd sem hann man ómögulega hvað heitir á spólu um daginn. Hún var mjög góð.

Þett’er fínt.

tack tack

--Drekafluga hugsjónamaður og Silverhawk bróðir hans--

Engin ummæli: