laugardagur, 24. apríl 2004

50/50

Drekafluga gekk léttum skrefum niður að Hringbraut, fyrir hornið og að Myndlistaskólanum. Í eyrum hans hljómaði N*E*R*D og honum leið hreint ekki illa. Hann brosti og varð hugsað til Höllu með þakklæti. Tónlistin var í boði hennar og létti honum skapið. "Og breytingin á herberginu," hugsaði hann "Ég hafði um eitthvað annað að hugsa, gat dreift huganum. Ég get ver- PK!! Spoot." PK tyggjó hafði verið það sem bjargaði honum í Rymju en þennan morgun hafði hann gleymt því. "O jæja. Ég á þetta samt. Ég get, ég vil, ég ætla... nei það er ekki rétt. Hvernig var þetta? Ég skal..." Drekafluga andvarpaði þessu frá sér og leit á spegilmynd sína í búðargluggunum. "Lookin' good." Þessu fylgdi glott. Hann gekk upp á aðra hæð og settist í sófa inni á kaffiteríunni. Á veggnum frammi hékk listi yfir umsækjendur og þeir voru miklu færri en hann hafði gert ráð fyrir. "44 er ekki slæm tala. 20 - 25 komast inn svo tölfræðilega á ég helmingslíkur." Inni í herberginu voru þegar fjórar manneskjur . Þrír strákar og ung kona. "Með þeim fyrstu. Alltaf. Það er minn stíll." Hann velti fyrir sér hvort það flokkaðist sem óstundvísi á meðan fleiri umsækjendur tíndust inn. Það kom honum á óvart hversu marga hann þekkti. Og svo var hún þarna líka. "Oh man! Svava. Hún teiknaði betur en ég út áttunda, níunda og tíunda bekk og gerir það áræðanlega ennþá. Our rivalry continues. Frábært. Ef allir hérna eru af hennar calíberi þá á ég ekki séns." Drekafluga sló sig andlega utan undir og dauðlangaði í PK tyggjó.
Einmitt þá gekk inn viðkunnaleg kona og sagði: "Jæja, þá er þetta að hefjast. Við byrjum á hlutateikningu."

Rödd móður Drekaflugu hljómaði inni í höfði hans þegar hann stóð fyrir framan trönuna. Þú hefur tilhneigingu til að gleyma þér í smáatriðum. Ekki teikna of smátt. "Ekkert mál," hugsaði hann "ég passa þetta." Einum og hálfum tíma síðar sneri hann sér við svo lítið bar á og skallaði vegginn. Svo sneri hann sér aftur við og horfði á ofvaxna teikninguna. "Djöfull. Nú gleymi ég öllum reglum. Geri þetta bara eins vel og ég get úr þessu."

Klukkan var rétt skriðin yfir tólf þegar Drekafluga fór hnípinn út og settist inn í bílinn hjá Öldu. Hún skutlaði honum heim þar sem hann fékk sér að borða og endurnýjaði blýantabirgðirnar. "Róaðu þig. Þetta var bara einn hluti af fimm..." sagði hann upphátt við spegilmynd sína inni á baðherbergi. "...og farðu svo í klippingu." Hann andvarpaði enn einu sinni, athugaði svo eymslin við augað á sér og komst að því að hann var að fá vokris. "Ok. Þetta sannar það. Guð er til og honum er meinilla við mig." Síminn hringdi og Alda beið fyrir utan. Stuttu síðar voru þau mætt í módelteikningu."

"Þetta hljóta að vera skrýtnustu brjóst sem ég hef séð... Ok, teiknaðu nú líkamann sem þau tilheyra." sagði Drekafluga við sjálfan sig í hljóði og mundaði blýantinn. "Ýkja, draga út, magna skugga... þetta gengur vel." Bros læddist yfir varir hans. Mp3 spilarinn einangraði hann frá umheiminum og utan módelsins og teikningarinnar var ekkert til. Ein mínúta eftir heyrðist dauflega í gegn um tónlistina. "Ok, andlit." Og hann teiknaði betra raunveruleikaandlit en hann hafði nokkru sinni áður gert. Næsta verkefni, fjórar pósur í fimm mínútur hver. Hratt og öruggt x 4. Módelið tók sér pásu í 10 mínútur og Drekafluga settist við vegginn og leið vel. Hann hreyfði sig ekki fyrr en módelið kom aftur í lokaverkefnið. Ein pósa frá tveimur sjónarhornum í 20 mínútur hvor. Tíminn leið án þess að Drekafluga tæki eftir því. Eftir fyrri myndina lagfærði hann ýmis smáatriði og gerði geislabaug fyrir ofan höfuð myndarinnar. Það passaði bara einhvern veginn. Hnökrar komu á seinni myndina en þeir voru ekki stórvægilegir. Með smá gremju merkti hann sér myndirnar og gekk út.

"Ekki slæmur dagur," hugsaði hann "en alls ekki svo góður heldur." Á sama tíma, annars staðar á landinu gældu Silverhawk og Fróði Dynur við hugmyndina um að verkefni hefðu verið dregin af handahófi og umsækjendur hefðu átt að teikna álf í fullum herklæðum. Þegar Drekafluga frétti af þessu vildi hann glaður að svo hefði verið. Þá hefði þetta verið eins og að drekka vatn. Á leiðinni heim kom hann við í búð og keypti sér kjöt, kók og páskaöl. "Ég má alveg vera góður við mig. Svo er ekki hægt að halda það út lengi að hugsa án þess að fá kjöt." Hann gekk heim, kveikti á tölvunni, steikti kjötið, hellti kókinu í glas og settist fyrir framan tölvuskjáinn. Hann dró djúpt andann og hugsaði um daginn. "Jæja, best að reyna að koma þessu í orð."

tack tack

--Drekafluga sem mun fara í litafræði á morgun--

Engin ummæli: