þriðjudagur, 23. desember 2003

Þorláksprédikun

Hér eimir eitthvað eftir af skötuilminum yndislega. Ég hálf kúgaðist þegar ég opnaði inn í frystikistuherbergið til að ná í skötuna –og ég er ekki gjarn á slíkt– en ég harkaði af mér og með velgjuna í hálsinum og svip sem passaði tilefninu fór ég upp, henti þessu inn í eldhús og forðaði mér hið snarasta. Í gær sofnaði ég um eittleytið og var svo rifinn upp klukkan korter yfir sjö í morgun. Það er svo skrýtið en ég er oft í dúndurskapi eftir lítinn nætursvefn. Svo var einnig í dag og ég valhoppaði um allt eins og hippi á nektarnýlendu (nema ég var í fötum. yfirleitt). Mamma lét mig þrífa klósett og ég bara flautaði á meðan. Það er auðvitað ekki í lagi með svona fólk. Þá á ég bæði við mömmu fyrir að hafa látið mig í þetta verk einmitt þegar ég var sem hressastur og svo sjálfan mig fyrir að hafa bara stokkið til og skrapað og skrúbbað eins og simpansi á amfetamíni. Hmm... já, það er ágætis lýsing. Nær þessu nokkuð vel bara. Hvað um það.

Einar Kári kom í heimsókn akkúrat þegar var að slakna á skapinu hjá mér og reif það upp aftur. Þegar við erum saman er afar erfitt að leiðast. Okkur finnst allavega að við séum frábærir náungar en ég veit ekki hvort kærastan hans Haraldar sé búin að jafna sig eftir að hafa hitt á okkur í góðu grúvi. Hún var frekar fámál sem stafaði kannski af feimni og kannski af því hún var svo upptekin við að hugsa um hverslags geðsjúklingar þetta væru. Hún hefur sjálfsagt ekki tekið í mál að hitta fleiri ættingja eftir þetta. Sorry Haraldur.

Mmmmmhhhh..... nú á ég bara eftir að taka til í herberginu og þá koma jólin von bráðar. Þau koma sko ekki ef ég tek ekki til þannig að þið sjáið að þetta er nauðsyn. En ég þarf að skrifa meira. Þetta gengur ekki. Má ekki missa mig í einhverri bloggvitleysu. Ég var búinn að skrifa smávegis um Ódæðisflokkinn, Sjálfstæðis! Fyrirgfið. ..og ESB vitleysu Samfylkingarinnar en fannst það ekki við hæfi svona rétt fyrir jólin. Geymi níðyrðin þar til seinna. Nú er ég rokinn.

En nú er víst ekki seinna vænna en að óska öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Og hér kemur það.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Megi gæfan fylgja ykkur um ókomna tíð.

tack tack

--Gummi Valur Drekafluga, jólabarn--

Engin ummæli: