föstudagur, 26. desember 2003

Ég held ég segi svosem ekki mikið núna. Það les þetta enginn fyrr en í janúar hvort eð er. Ég bætti Önnu fótboltagellu inn á blüglistann hér til hliðar þar sem hún er bæði svöl og svo frænka mín í þokkabót. Svo fílar hún Jón Arnar (bróður Einars Kára sem ég nefni hérna stundum) og hann er fínn gaur.

En jólin voru yndisleg. Ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir hvítu jólin. Og ég veit ekki hvernig það var hjá ykkur en hérna var alvöru jólasnjór. Það var logn og hann féll í flygsum. Ég hljóp út og lét mömmu fá myndavélina mína til að ná þessu á filmu. Hún hafði reyndar tekið myndir af mér og Skottu (hundinum) fyrr um daginn en þessar náðu snjókornunum vel. Jæja, í matinn var besta aspassúpa í heimi og sænsk önd. Ég var búinn að ákveða fyrirfram að borða ekki mikið af súpunni til að hafa pláss fyrir öndina en hún var bara svo góð að ég gat varla hætt. Ekki heldur með öndina. Ég át illilega yfir mig og var líklega verst farinn af okkur hvað það varðaði. Þetta árið vorumvið bara þrjú. Ég, mamma og pabbi. Ég hef aldrei upplifað svona fámennt aðfangadagskvöld. Það var samt bara notalegt. Svo var gengið frá eftir matinn og við komum okkur svo þægilega fyrir inni í stofu. Ég opnaði pakkana með Guatemalískum hníf sem eitt sinn vakti orðin "Whoa! That's a big-ass knife!" frá Russ, vini mínum frá Ástralíu. Ég gæti talið upp fullt af gjöfum hér en ég geri það ekki. Þær féllu flestar (þó ekki allar) í skuggann af gjöfinni einu.

Um hálsinn á mér er fíngerð gullkeðja. Á þessari gullkeðju er gullhringur. Á þessum gullhring er álfaletur. Hjartað í mér sló örar þegar ég sá kassa merktan The Lord of the Rings í bak of fyrir og hægði ekkert þegar ég opnaði hann og tók lítinn svartann poka úr honum. En ég táraðist þegar ég opnaði pokann og í lófanum á mér lenti Hringurinn. Ég opnaði engar gjafir í smá tíma heldur sat bara og horfði á hann. My own. My... precious.

Ég fór svo á Selfoss til að sækja ömmu og heilsa upp á afa í leiðinni. Hann var bara nokkuð hress en samt miklu þróttminni en hann á að sér að vera. Mér þótti ótrúlega vænt um að geta hitt hann. Svo fór ég aftur heim og keyrði frekar greitt (og komst upp með það í snjónum, enda á Imprezu) og komst í miðnæturmessuna. Á messudagskránni var ártal sem ég hef sterkan grun u mað hafi átt að vera 2003. Þvi skeikaði um 18.000 ár og var 20003. Ég held það sé ekki til sá texti sem þessi skemmtilegi prestu hefur látið frá sé fara sem er ekki með einhverjum innsláttar- og / eða prentvillum.

Svo var heilmikil veisla í gær þar sem við vorum upp undir 30 að borða hangikjöt og tilheyrandi og svo var spilað fram á rauðanótt. Party & Co og þess háttar. Við Einar Kári fórum síðastir að sofa eftir að hann hafði unnið mig 2 -1 í Explore Europe. Ég vinn rematchið. En ég nenni ómögulega að skrifa meira og þið nennð væntanlega ómögulega að lesa meira enda er þetta jarðbundnara post en ég hef oft skrifað og þar af leiðandi ekki jafn skemmtilegt. Allavega ekki eð mínu mati. En ég er farinn.

tack tack

--Drekafluga--

Engin ummæli: