fimmtudagur, 4. desember 2003

Ég var að fatta hvað það er skrýtið að ég hafi aldrei hér á blogginu mínu formælt tölvunni sem ég sit núna við. Ég held að þetta sé tölvan sem Microsoft notaði sem test-platform fyrir bluescreen og bugs ýmis konar. Var að skrifa post áðan og þá fraus hún. Þetta var líklega í 6023 skiptið sem hún frýs þegar ég sit hérna og er oftar en ekki að gera eitthvað sem er ekki nær að vistast og hverfur óafturkallanlega við restart. Ef ég væri dúlegri væri ég löngu búinn að laga tengingarvandamálin við tölvuna mína (hina tölvuna á heimilinu), allavega finna út hvað væri að og vera svo á netinu í gegn um hana. Það er endalaust fúlt að þurfa að nota þetta drazl. En ég eyði ekki fleiri orðum í þetta.

Já. Ég er nörd.
Klukkan 19:05 hljóp ég niður stigann með sverð í hönd (já, sverð úr shiny, meðalsterkum málmi). Opnaði svo dyrnar, bauð skelkuðum nágranna mínum gott kvöld og hljóp áfram út í bíl. Keyrði svo sem leið lá upp í Breiðholt. Hugsið aðeins um þetta: "..sem leið lá.." Þessi leið lá nefnilega um nýju, glæsilegu brúna hjá Staldrinu (sem ég er viss um að hafi tapað stórlega á þessari framkvæmd). En hún er jú ný og glæsileg á þann hátt að hún býður upp á nýja og glæsilega árekstarmöguleika, sem er eitthvað sem við nýjungaglaðir Íslendingar ættum að taka fagnandi. Hvernig stendur á því að ekki megi nýta sömu brúarhugmyndina oftar en einu sinni? Gatnamálafundirnir þegar þarf að byggja nýja brú virðast ganga þannig fyrir sig að rótað er í öllum gögnum þangað til fundin er hönnun sem ekki hefur verið reynd áður á landinu og óháð velgengni þeirrar hönnunar erlendis er opnuð kampavísflaska og byggð brú. Þetta, kæru lesendur, er heimska. Svo pössuðu þeir sig líka að vera búnir akkúrat þegar var farin að myndast hálka þannig að grunlausir ökumenn hefðu ekki nægan tíma til að læra á nýja kerfið.

Þið eru kannski farin að fá það á tilfinninguna að ég hafi zlædað á hálkublett og endað á ljósastaur. Jæja, ég gerði það ekki en er samt pirraður yfir þessu brúaskipulagi í borginni. Hvað er gott íslenskt orð yfir 'inconsistency'? Ósamræmi? Já. En yfir brúna fór ég og komst heilu og höldnu upp í Dúfnahóla þar sem ég hundsaði lyftuna og hljóp upp á sjöttu hæð. Þar voru fyrir Haukur, bróðir minn og Einar Kári, vinur okkar. Við settumst svo við borð og spiluðum. Spilið hét Askur Yggdrasils og þar sem við höfum spilað það núna í átta ár held ég erum við farnir að ná fáránlega vel saman í gegn um það. Og svo eru ekki til þær aðstæður þar sem er hlegið meira. Allt sem á minnsta möguleika á því að verða fyndið verður það. Í gær spiluðu t.d. Íþróttaálfurinn, Þorgrímur Þráinsson og Jói Fel þátt í stærsta hláturskastinu. Mjög undarlegt. En við Einar vorum allavega í hlutverki tveggja ævintýramanna sem í þetta skiptið upprættu ræningjahóp með hjálp Haraldar (sem er líklega hættur að blogga hér til hliðar) og kærustunnar hans sem bættust í hópinn um hálfellefuleytið. Þau fóru heim um hálf þrjú leytið að mig minnir en við Einar kláruðum þetta ævintýri og vorum byrjaðir á því næsta þegar við hættum, um klukkutíma seinna. Ég get ekki beðið eftir því að halda áfram.

Fyrir þá sem þarfnast útskýringa um hvað spunaspil er þá er það hlutverkaspil, role-play og er þekktasta dæmið af því líklega Dungeons & Dragons. Ég vil koma því á framfæri nú að myndin Dungeons & Dragons er svartur blettur á nafninu. Hvað um það. Hægt er að spila mismunandi kerfi eftir mismunandi reglum en þar sem ég er vanastur Aski mun ég lýsa honum stuttlega:
Í grunninn er hægt að vera einn af fimm kynþáttum: Menn, Vanir, Dvergar, Skógarálfar og Jarðálfar en svo er búið að skapa marga kynþætti þess utan og hægt að spila sem þeir ef vilji er fyrir hendi. Persónan getur svo tilheyrt nokkurn veginn hvaða atvinnuvegi sem er; verið málaliði, þjófur, kaupmaður, hermaður o.s.frv. og spilast eftir því. Svo er manni skellt inn í ævintýri sem gengur oftar en ekki út á að leysa þrautir, berjast fyrir eða við heilu konungsríkin, bjarga þorpinu úr klóm ills galdrakarls eða drepa prinsessuna og bjarga drekanum. ...hmm... það var eitthvað defect við þetta síðasta. Jæja, ég skrifa ekki meira um það. Ef þig eruð forvitin þá bara spyrjið.

tack tack

--Drekafluga--

Engin ummæli: