fimmtudagur, 31. mars 2005

Af bílum og fleira

Ég var í fréttablaðinu í gær. Það var stemmning. Þar var ég ekki að reyna að kaupa bíl en ég hef einmitt verið að því undanfarna daga (góð tenging, ha?). Og ég get sagt ykkur að það hefur gengið agalega. Fyrst ætlaði ég að kaupa mér svartan Peugeot en hann seldist áður en ég gat náð í hann. Það sama gilti um Renault Clio stuttu seinna. Svo fann ég draumabílinn, Suzuki Swift '94 í toppástandi, gullfallegan og glansandi. Þessir bílar eru ódrepandi og var ég því skiljanlega spenntur. Það kom svo í ljós að kerlingarkvikindið sem var með hann á sölu var ekki alveg... ja, hún var eitthvað skrýtin og tók bílinn af sölunni eftir að hafa hundsað og skellt á hringingar sölumannsins sem var alltaf að reyna að segja henni að fólk væri stöðugt að spyrja um bílinn hennar. Hún ákvað að auglýsa í blöðunum einhvern tíman seinna. Í gær prufukeyrði ég svo annan Peugeot, svo snotran að sjá. Svo fór ýmislegt að koma í ljós. Í bílnum var fúkkalykt sem við Jón mágur minn (sem var með mér) sáum að var úr röku, nánast blautu skottinu. Útvarpið virkaði ekki þar sem loftnetið, sem var víst einhverri spes og dýrri gerð, var brotið. Afturdempararnir voru ónýtir og þegar ég ætlaði að skrúfa niður rúðuna fór glerið úr falsinu og datt skakkt niður í hurðina. Það sama gerðist Jóns megin. Áhugi minn á þessum bíl minnkaði því til muna. Í kvöld er ég svo að fara að skoða Renault Clio sem bróðir minn lét mig vita af. Þetta er víst ömmubíll sem geymdur hefur verið inni í skúr öll sín ár og sáralítið keyrður. Ef hann reynist vera gallaður mun ég andvarpa þungt og kaupa mér vespu.

tack tack

--Drekafluga með bílahuga--

Engin ummæli: