föstudagur, 3. desember 2004

Að vera kúl í strætó

Ég sat í fullum strætónum og beið þess að koma heim. Ég var í mínum heimi en samt meðvitaður um umhverfið, skemmtileg blanda. Birtan að utan varð sérstök í gegnum grábrúnabrúna slikjuna á gluggunum. Ég skrifaði artí athugasemdir í bók á milli þess sem ég rúllaði pennanum um fingurna. Á Hverfisgötu steig inn stórgerð kona, á að giska 25 ára gömul. Hún var óörugg, hafði greinilega ekki ferðast mikið, ef nokkuð, með strætó og þekkti borgina líka illa. Útundan mér sá ég að hún stóð óörugg og tilbaka þegar hún spurði bílstjórann út í eitthvað sem ég var of langt í burtu til að heyra. En ég heyrði nóg til að vita hvaða stoppistöð hann átti við. Konan settist svo á móti mér, óróleg og fiktaði í símanum sínum. Ég hélt áfram að skrifa. Hún kipptist við þegar hún hélt að vagninn mundi halda áfram Rauðarárstíg. Ég leit upp, á hana og sagði "Þú ferð út á þarnæstu." Hún horfði á mig með undrun en sagði ekki neitt. Fór svo út á þarnæstu stoppistöð með feginssvip þegar hún sá Kennaraskólann og gekk í áttina að honum. Strætóinn tók aftur af stað og mér leið frekar kúl.

tack tack

--Drekafluga með örlitlar brosviprur--

Engin ummæli: