mánudagur, 15. nóvember 2004

Mér þætti vænt um að þú talaðir ekki við mig. Ég er að hugleiða.

Fallegur vetrardagur í fimm stiga frosti. Ég tók strætó niður á Lækjartorg og vildi að ég hefði verið með Sennheiser draumaheyrnartólin yfir eyrunum. Í staðinn söng ég í huganum. Ég var búinn að týna heyrnartólunum af mp3 spilaranum og lokuðu Pioneer heyrnartólin sungu sitt síðasta í handbremsuslysi í traktor í sumar. Frá Lækjartorgi gekk ég yfir á Listasafnið, fór upp á efri hæðina, inn í innri salina og skoðaði myndir eftir Erró. Skráði niður, í myndum og bleki, allt það sem flaug í gegn um huga mér og fór svo út. Kíkti inn í Eymundsson en aldrei þessu vant var ekkert þar að skoða. Ég gekk að Lækjartorgi og beið eftir næsta strætó upp á Hlemm. Vegna veðurfars ákvað ég að bíða úti. Maður í brúnum leðurjakka var að reykja og horfði undarlega á mig. Það var eitthvað undarlegt við þennan mann Þegar strætóinn kom fylltist hann af fólki og þessi maður settist við hlið mér. Á móts við Regnbogann sneri hann sér að mér og ætlaði að segja eitthvað en ég svaraði með því sem ég var búinn að ákveða að yrði titillinn á frásögninni (ef hann yrti á mig, sem hann og gerði). Á Hlemmi fór ég út og gekk hröðum skrefum upp Snorrabrautina. Maðurinn elti mig. Ojæja, hugsaði ég, hann er stærri en ég og áræðanlega sterkari en ég gæti samt tekið hann. Ég lét sem ég sæi hann ekki. Þegar ég var hálfnaður upp götuna mætti ég skólasystur minni og við töluðum saman. Maðurinn, sem virtist kunna illa við margmenni (tveggja manna) beygði yfir götuna og hvarf í átt að Þingholtunum. Ég andaði léttar og tveimur mínútum seinna var ég kominn í Litaland. Með glænýja olíuliti í Guatemalaullarpokanum hélt ég út að strætóskýli og var kominn upp í Kringlu áður en ég vissi af. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði farið inn í Kringluna síðan jólaskrautið var sett upp. Þarna inni tók ég ákvörðun. Ég ætla að fjölfalda ferilskrá og sækja um vinnu út um allt. Svolítið skrýtið ef maður hugsar til þess að ég hef engan feril. Kann allt í sveitinni (sem er reyndar alveg óheyrilegur hellingur ef maður hugsar út í það) en það er til lítils gagns í bænum. Þetta verður án efa efni í comic. Takk fyrir mig.

Gummi Valur Drekafluga - Ferilskrá:

15 ár í sveitavinnu
Ein helgi í söluturni
Ein nótt við vörutalningu í 10-11
Nokkrir dagar við flokkun og talningu í Sjóvá.

tack tack

--Drekafluga, Firefox rúlar, ég er búinn að henda explorer. Spread the word--

Engin ummæli: