sunnudagur, 9. maí 2004

Sunnudagur

Klukkan er 06:48. Það er dregið frá glugganum á herberginu. Ég vaknaði klukkan 04:45 (þetta virkar fyrr með núllinu fyrir framan er það ekki) en lá í rúminu í korter. Það er ótrúlegt hvað það er góð tónlist í útvarpinu einmitt þegar fólk ætti að vera sofandi. Ég fór svo fram og heilsaði mömmu ótrúlega hress eftir þennan tæplega tveggja tíma nætursvefn. Því þakka ég að ég skipti á rúminu í gærkvöldi. Tandurhreinn svefn. Ég komst síðan að því hvað ég þarf að gera til að hafa lyst á morgunmat. Ég þarf bara að fara á fætur um fimmleytið. Át fullan disk af Kellog's finest og fór svo út og keyrði mömmu út í Leifsstöð. Hún hafði mjög gaman af Eddie Izzard monologinu mínu og ég hlakka alltaf meira og meira til að sýna henni t.d. Dress to Kill. "The Psychotic Bastard Religion. And an adviser said: 'How about the Church of England?' Church of England, that's better. ...Even though I am Scottish, myself." Ég keyrði svo sem leið lá til baka en þegar ég var að keyra úr Garðabænum fékk ég þessa tilfinningu... að þykja vænt um þennan stað. Og ég er ekki endilega að tala um Garðabæ. Ég sá hvernig Kópavogurinn (sem mér þykir reyndar vænna um en Garðabæ) breiddi úr sér fyrir framan mig. Og svo Reykjavík eftir það. Og þetta var fallegt. Alveg ótrúlega fallegt og mér þótti vænt um þessa fegurð. Flestir hafa áræðanlega fengið þessa tilfinningu, hvaðan sem þeir eru, að þykja allt í einu vænt um bæinn sinn, sveitina sína eða annað álíka og vera feginn að hafa fengið að upplifa hversu frábær viðkomandi staður er. Ég skrúfaði rúðuna niður (sem er svolítið skrýtið að segja um rafdrifnar rúður) og fór ekki yfir 40 það sem eftir var leiðarinnar. Fuglasöngur og falleg birta allt í kring. Sólstafir. Ég á eftir að verða ósammála mér þegar ég lognast útaf yfir sálfræðiglósunum í dag en maður ætti alltaf að vakna klukkan sex á svona sunnudagsmorgnum. Ef ég ætti fartölvu væri ég núna úti að skrifa þetta. Ég vildi bara segja það núna og meina það þar sem ég held ég hafi ekki gert það síðast: Gleðilegt sumar. Vonandi getið þið notið dagsins þrátt fyrir prófin. Ég er að hugsa um að taka mér pásu og fara út og jafnvel vera með lög eins og Beautiful Day með U2 á spilaranum. Magnað.



tack tack

--Drekafluga sem líður alveg ótrúlega vel--