miðvikudagur, 4. apríl 2007

Hast du wirklich an alles gedacht?

Ég var að horfa á trailerinn að Open Water 2. Á þýsku. Sagan er á þessa leið: Ungmenni með raddir úr samhengi við varahreyfingar fara á snekkju, drekka og skemmta sér úti á ballarhafi. Þau stökkva svo í sjóinn en í leik sínum athuga þau ekki að þau komast ekki á snekkjuna aftur ef þau eru öll í sjónum því borðið á snekkjunni er svo hátt. Þau verða því að láta þarna fyrirberast og auðvitað laða þau að sér nokkra hákarla með hræðslu sinni. Sú hákarlategund sem að þeim hefði líklegast komið er Oceanic White Tip (ég hef ódauðlega ást á National Geographic og Discovery) en ég sá ekki hvort þeirri staðreynd var fylgt eftir. Hitt er svo annað mál að það gæti varla talist verkfræðiafrek að ná þessa tæpa tvo metra upp fyrir vatnsborðið og í borðið á snekkjunni. Þarna voru sterklegir karlar og mjóslegnar konur, eins og lög gera jú ráð fyrir í þýskutalsettum Hollywood b-myndum. Það ætti ekki að vera of mikið mál fyrir allt þetta fólk að velja skankalengstu konuna og lyfta henni upp. Tveir karlmenn træðu marvaða upp við snekkjuna, hvor á móti öðrum og á milli þeirra væri tilvonandi bjargvættur þeirra. Um leið og þeir lyftu henni upp mundu aðrir svo hjálpa til við að koma henni eins hátt og auðið væri. Ekki flókið. Svo nei, þeir hugsuðu ekki út í allt, en titill færslunnar er fengið úr þessum trailer. Þessir Þjóðverjar...

tack tack

--Drekafluga, kominn í páskafrí--

Engin ummæli: