föstudagur, 27. apríl 2007

CTA!

Það rýkur úr stríðshrjáðum vellinum. Ókleifir veggir hringleikahússins rísa brattir í kring. Skýin flýta sér yfir drungalegan næturhimininn, eins og þau séu að keppast um að sjá til okkar. Ýta hvert öðru frá. Við höfum verið að í tvo daga. Sviti og storknað blóð mynda kunnuglega slikju um okkur alla. Við erum orðnir vanir sviðanum í augum okkar, tökum ekki eftir honum lengur. Við stöndum við suðurenda vallarins, fimm saman, og horfum út að miðju. Þar, höggvið í jörðina, stendur öxi. Hún er ekki stór og lætur ekki sérlega mikið yfir sér en hún er órjúfanlegur hluti af okkar æðsta takmarki. Af enda hennar blaktir rauður borði í andvaranum. Hvort sem hann var rauður upphaflega eða hefur litast af blóði ótölulegra stríðsmanna veit enginn lengur. Handan við öxina sjáum við andstæðinga okkar, jafnþreytta en jafnákveðna og okkur. Áhorfendurnir í kring eru flestir farnir til síns heima, búnir að fá nóg. Nokkrir eru þó eftir hér og þar á bekkjunum til að sjá þá bestu. Trumbuslátturinn byrjar aftur, hægt en taktfast og þögnin er rofin. Fingur herðast um sverð og skildi og við komum okkur fyrir. Á jörðinni fyrir aftan okkur liggur risavaxinn kringlóttur skjöldur. Við stígum öðrum fæti á hann, tökum okkur stöðu og horfum fram á við. Trumbuslátturinn magnast, slær nú í takt við hjörtu okkar og næstu andartök líða ofurhratt og löturhægt í senn. Lúðraþytur. Við hlaupum af stað.

-- -- --

Í gær, á skemmtilegustu æfingu sem ég hef farið á fórum við í víkingaútgáfuna af Capture the Flag. Við hvorn enda vallarins liggur skjöldur og hver liðsmaður í hvoru liði verður að standa á honum þegar blásið er til leiks. Á miðju vallarins liggur öxi. Markmið leiksins er að ná öxinni og slá henni í skjöld andstæðingsins. Þetta er held ég einhver skemmtilegasti leikur sem ég veit um og ef hann verður aftur á næstu æfingu þá get ekki beðið.

tack tack

--Drekafluga víkingur--

Engin ummæli: