fimmtudagur, 1. september 2005

Örstutt...

Mig hefur langað í nokkra daga að skrifa um pólitík en ég held ég hafi ekki orku í það. Ég er bara orðinn svo öfga þreyttur á öllu kjaftæðinu sem fylgir því. Síðustu daga hef ég haft minnst álit á Sjálfstæðisflokknum, sem er reyndar ekkert nýtt, en ég hef líka ört minnkandi álit á Samfylkingunni. Sjálfstæðismenn eru nú að þakka sér allt það góða sem hefur gerst í Reykjavík, þar sem þeir hafi verið byrjaðir á þeim verkefnum og kenna R-listanum um allt illt. Svo eru þeir með svo fáránlegar hugmyndir varðandi t.d. skólamál að ég ætla ekki að minnast á það því allt mundi fyllast af fúkyrðum.

Mér hefur lengi fundist að Samfylkingin sé flokkur sem veit ekki hvað hann vill, nema þá kannski helst kjósendur. Hún er að reyna að ná til svo víðtæks hóps að oft á ég erfitt með að greina stefnufestu hjá þeim í hinum ýmsu málefnum. Svo á ég erfitt við að sætta mig við nokkurn flokk sem gaf Kárahnjúkavirkjun grænt ljós. En hvað hún er að borga sig, ha? Þau eru orðin ansi dýr, þessi nokkru störf fyrir austan þegar fyrirtæki eftir fyrirtæki fer á hausinn sem hliðarverkun af framkvæmdunum. Þess utan er engin framsýni, ekki nokkur, í því að virkja þarna. Við erum líklega eina þjóðin í heiminum sem er ennþá nógu vitlaus til að virkja jökulár svo að ég tali ekki um að nánast gefa rafmagnið sem fæst úr virkjuninni. En ég er að missa mig upp í spól.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunnar um borgarstjórnarkosningarnar í vor fengi Sjálfstæðisflokkur tæp 50% atkvæða og 8 borgarfulltrúa. Samfylkingin fengi tæp 30% og 5 menn og Vinstri Grænir fengju tvo. Hvorki Frjálslyndir né Framsókn næðu inn manni. Til hamingju Vinstri Grænir og Samfylking. Með frekju ykkar (og agalega erfiðum málum þegar stutt er í kosningar) eruð þið að glutra borginni úr höndum ykkar. Vel gert. Nú getið þið allavega með stolti sagt "Sko, Framsókn fær engan mann!" og þá hlýtur ykkur að líða vel.

tack tack

--Svolítið pólitísk Drekafluga--

Engin ummæli: