Ja hvaða nú og hvaða nú. Nýtt ár? Hvúrslags.
Jæja, það er ekki eins og ég hafi misst af því. Á Gamlárskvöld var ég hjá systur minni, át einhvers konar risasvín (grunur um steranotkun) og horfði á áramótaskaupið sem var svona upp og ofan þetta árið. Sumir “brandarar” áttu tilvist sína ekki skilda. En hvað um það. Þessu næst fór ég upp í Dúfnahóla til Hauks og Kristínar og hef ákveðið að eignast þar vini sem ég get eytt þessu kvöldi með í framtíðinni. Bróðir minn flytur nefnilega þaðan um mitt þetta ár svo að besta útsýnið í bænum verður ekki lengur mitt til að njóta. En ég fékk þó að njóta þess í þetta skiptið. Ég var í svo góðu skapi að ég vissi ekki fyrr til en ég var, mér til mikillar skelfingar, farinn að bryðja heslihnetusúkkulaði frá Quality Street. Þar sem ég hafði einsett mér að veiða kókosmola hélt ég ræðu um heimsku Nestlé að gera neytendum þetta, þ.e.a.s. að gera molana sem líkustum hver öðrum. Þess utan er Nestlé þekktur arðræningi í þriðja heiminum en ekki verður farið nánar út í það hér.
Þegar fólk tók að róast eða verða uppiskroppa með flugelda og ég búinn að ná blóðstreymi í kalna fingur mína héldum við svo upp í Seljahverfi. Þar var fjölskylda Kristínar í góðu grúvi og við hlógum og spiluðum (aðallega Partý & co) fram á rauða nótt. Þar sem ég var svo edrú, eins og alltaf, fyrir ykkur sem vissuð það ekki, keyrði ég Hauk og Kristínu heim og var svo á bílnum hans Hauks. Ég fór svo að sofa milli átta og níu og svaf til ca. sex á nýárskvöld. Við Sonja reykspóluðum svo austur og komumst meir að segja upp brekkuna hérna við bæinn sem er ekki slæmt á Corollu ’87 í svona færð.
Svo opnuðust augu mín fyrir svolitlu í gær. Eða öllu heldur, ég meðtók loksins það sem ég hef lengi vitað en það þurfti ekki nema örstutt samtal til þess. Það sem rann upp fyrir mér er þetta: Fólk alhæfir um pólitík þegar það hefur ekki hugmynd um hvað það er að tala. “Vinstri grænir hafa engin stefnumál utan uhmhverfisverndar,” “Frjálslyndir hafa ekki vit eða skoðun á neinu nema kvótakerfinu,” “Samfylkingin hugsar um það eitt að ganga í Evrópusambandið,” “Sjálfstæðisflokkurinn vill bara sökkva landinu í stíflulón og bera allan auð til örfárra til að njóta hans,” “Framsókn fylgir Sjálfstæðisflokknum í einu og öllu.”
Það sem mér finnst athyglisvert er að ég get hrakið þetta flest en ég á erfiðara með að verja hendur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Kannski er það út af biturleika mínum yfir þeim öskrandi staðreyndum sem Íslendingar sjá ekki, semsagt að þeir eru að flytja allan auð á fárra hendur og þeir eru að virkja vitlausa staði á landinu og það er bara fjandi alvarlegt mál. Ég er alls ekki á móti virkjunum. Það þarf að virkja. En af hverju í fjandanum að stökkva beint á Kárahnjúka og Þjórsárver? Svo er það Samfylkingin. Það sem fer mest í taugarnar á mér við hana er að það er stundum eins og þeir séu að finna sér málefni sem virka vel á almenning til þess eins að vera í náðinni í smástund sbr. aðskilnað ríkis og kirkju. Jújú, allt gott og blessað svosem en var margar mílur frá því að vera mikilvægt málefni þegar það var lagt fram. Svo skal ég gagnrýna inngöngu í Evrópusambandið seinna. Frjálslyndir eru líklega með bestu stefnumál allra flokka hvað varðar sjúka, aldraða, öryrkja og aðra, sem á aðstoð þurfa að halda og vilja að þeir sitji fyrir í umönnun samfélagsins. Vinstri grænir vilja binda enda á hersetu í landinu, hafna alræði markaðshyggjunar og bæta stöðu einstaklinga og fjölskyldna með því að jafna skattbyrðina í rökréttu hlutfalli við tekjur, svo fátt eitt sé nefnt. Ég bið ykkur bara að hlusta á Steingrím þegar rökræður eiga sér stað milli þessara herramanna. Hann talar alltaf af mestri skynsemi og færir best rök fyrir sínu máli og jafnvel þótt ég hafi verið ósammála eða leggi mig fram um að fylgja öðrum að máli verður hann mest sannfærandi. Hann talar líka mannamál sem ekki er hægt að segja um þá alla.
En ég ætti ekki að skrifa meira. Fólk missir áhugann þó svo ætti ekki að vera þegar svo mikilvæg mál eru annars vegar. Skrifa bara meira seinna og hef það kannski betur skipulagt.
tack tack
--Drekafluga. The wrath cometh--
föstudagur, 2. janúar 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli