laugardagur, 24. janúar 2004

Sumir hafa enga tilfinningu fyrir tímasetningu...

...en samt er ég líklega litlu skárri. Afi minn dó í gær. Maðurinn sem ég hef litið upp til og fylgt síðan ég man eftir mér ákvað að skilja við þessa veröld. Ég veit að hann er núna á betri stað að sýna fólki hvernig á að syngja. Þó hann hafi ekki verið sá frægasti var hann besti söngvari sem þeir sem þekktu hann vissu um. Það var svo í gamla daga að fólk gat ekki unnið fyrir þessu heldur lagði frá sér verkfærin og stoppaði til að hlusta á hann syngja. Hann var svona maður sem gat allt. Hann var sterkastur, hraustastur, útsjónarsamastur, átti fallegustu konuna, var mestur og bestur í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Það þurfti mikið að gerast til að hann missti úr dag og ég ætla að reyna að heiðra það með því að halda mínu striki, jafnvel þó ég sé búinn að gráta yfir meðaltali síðan ég var vakinn með þessum fréttum í gærmorgun. Ég græt hann samt.

Ég mun aldrei hætta að sakna hans en ég á vonandi eftir að hitta hann aftur. Hann hafði sjálfur ekki hitt pabba sinn síðan 1918. Það eru 85 ár. Hann var fimm ára þá. Ég vona að ég eigi eftir að líta jafn vel út þegar (og ef) ég verð níræður og það er kannski ekki svo fráleit von. Við vorum nefnilega líkir að mörgu leyti. Eitt stærsta hrós sem ég hef fengið var þegar mér var sagt að ég minnti á afa minn, að ég líktist honum í vexti og hreyfingum. Ég sagði afa þetta og ég veit ekki hvor okkar var ánægðari. Við vorum báðir hálf klökkir. Það var svo erfitt að kveðja hann í gær en ég veit ég fæ að hitta hann aftur. Einhvern tíman.

Ég get ekki skrifað meira núna, enda þarf þessi kannski ekki.

--Guðmundur, eins og afi minn.--

Engin ummæli: