laugardagur, 3. janúar 2004

Nú í hálfgerðri þversögn við vaxandi umræður síðasta pósts (þar sem ég held að meirihluti Íslendinga sé á móti innöngu landsins í ESB) þá skelli ég þessu upp núna.

Evrópusambandið? Nei. Algjör mínus. Því þá? Ég læt Bændablaðið skýra út mína afstöðu og til að hafa þetta ekki allt of langt tek ég það dæmi sem stendur mér næst, mjólkurframleiðslu. Gjörið svo vel:

Ef litið er á mjólkurframleiðsluna þá ráðast kjör hennar af þremur þáttum:
1. Stærð framleiðslukvóta við úthlutun og nýtingu hans til lengri tíma.
2. Stuðningi við greinina í breyttu umhverfi.
3. Greiðslugetu afurðastöðva til mjólkurframleiðenda.
Kvótinn yrði væntanlega svipaður og nú en nýting hans, það er framleiðsla á mjólk, ræðst væntanlega af hlutdeild af innanlandsmarkaði sem enginn veit hver verður. Hlutdeildin mun ráðast af verðhlutföllum innlendrar og erlendrar framleiðslu. Ferskvara (drykkjarmjólk, rjómi o.þ.h.) myndi njóta fjarlægðarverndar en vörur með lengra geymsluþol (ostar, jógúrt o.þ.h.) þyrftu að keppa við innfluttar vörur. Stuðningur hins opinbera við mjólkurframleiðslu myndi lækka verulega. Nefnt er dæmi frá finnsku mjólkurbúi sem fær um 20 krónur í stuðning við hvern mjólkurlítra. Þegar Ísland væri orðið hluti af innri markaði ESB yrði heildsöluverð mjólkurafurða frá afurðastöð að lækka um 10-15 kr. á hvern mjólkurlítra, jafnvel meira. Þessari verðlækkun yrðu bændur og afurðastöðvar að mæta með hagræðingu og lækkun kostnaðar, stækkun búa og fækkun afurðastöðva.


Svo er það líka þetta með hið himinháa vöruverð hér á landi. Ég skal segja ykkur svolítið sem fæstir virðast gera sér grein fyrir. Þið kannist væntanlega við þær verðkannanir sem sýna það, á pappír, hversu dýr matvara er á Íslandi. Hinsvegar gleymist alltaf að nefna að þessi matvara í útlandinu, sem er svona skemmtilega ódýr, er eitthvað sem enginn sómakær Íslendingur mundi nokkurn tíman vilja leggja sér til munns. Ólystugir afgangar og grænmeti í D-flokki. Við erum nefnilega, ef einhver var ekki búinn að átta sig á því, alveg ótrúlega kröfuhörð þjóð. Vörur sambærilegar í verði eru á svipuðu verðbili, jafnvel ódýrari hér á landi.

Og hvað áttu Íslendingar aftur að fá marga fulltrúa innan sambandsins? Þrjá ef mig misminnir ekki. Þrír á móti tæplega 700. Nei, ég er ekki sannfærður.

tack tack

--Drekafluga--

Engin ummæli: