fimmtudagur, 18. desember 2003

Ég tók próf á netinu og komst að því að ég er frábær náungi.

Ég er fyrir austan þegar þetta er skrifað. Vaknaði klukkan 9:09 í morgun og sofnaði svo aftur. Vaknaði svo um tíuleytið og sá fram á að fyrst líkami minn væri svona latur væri ekkert gagn í honum nema eftir enn meiri svefn. Svo sofnaði ég aftur en fór á fætur um ellefuleytið. Fór fram, burstaði tennurnar, roðnaði, heilsaði gestunum og fór inn í herbergi þar sem ég klæddi mig og hélt áfram tiltekt í herberginu frá því deginum áður. Álfheiður systir keyrði mig niður á BSÍ og þaðan sat ég í rútu að Selfossi. Þegar þangað var komið fór ég með Kötu sem sótti mig að heimsækja afa í sjúkrahúsið en hann var lagður inn í fyrradag. Er með einhverja sýkingu. Amma sat á rúmstokknum hjá honum og ég veit fátt fallegra en eldra fólk sem hefur gengið í gegn um ótrúlegustu hluti saman og ann hvoru öðru meira en ég get hér lýst í orðum. Þegar hún kvaddi hann og sagðist mundu koma aftur á morgun sagði hann eftir að þau höfðu faðmast og kysst: “Ég geymi frá þér ylinn.” Ég bara táraðist. Ég fór svo með ömmu og Kötu heim og hef þar verið síðan. Hef gert hitt og þetta. Hlustaði til dæmis á Ármann Jakobson tala um Hrigadróttinssögu og Tolkien í útvarpinu á meðan ég var í legoinu mínu. Það er orðið heillangt síðan ég hef leikið mér í lego. Í kvöldmat var svo auðvitað veislumatur eins og yfirleitt er þegar mamma eldar.

Annars er ég í blendnu skapi. Að flestu leyti líður mér afskaplega vel en á hinn bóginn veit ég ekki alveg hvar ég stend og ég fíla ekki svoleiðis. Þegar kemur að stelpum væri nefnilega ekki hægt að dæma mig geðheila manneskju. Í það minnsta ekki með góðri samvisku. T.d. vissi ég ekki hvernig ég átti að mér að vera í gleðskapnum sem var haldinn eftir nokkuð vel heppnaða tónleika Kvennaskólakórsins í gær. Svo er það víst orðin almenn vitneskja að ég hef frekar mikla snertiþörf og þar af leiðandi snertu mig þarna einhverjar stelpur. Það er bara gott, ég hef ekkert á móti því. En þegar sterkar tilfinningar felast í þessum snertingum (sem lýsa sér oftar en ekki í faðmlögum, bak- og hálsklóri og öðru þvíumlíku) og það frá fleiri en einni manneskju þá held ég að það sé eðlilegt að vita ekki hvernig maður á að haga sér. Ég veit ekki enn hvernig ég á að haga mér. En já, ég minntist á tónleikana. Þeir voru bara ansi góð frumraum kórsins í ár en mér fannst samt skrýtið að heyra bara í mér en ekki hinum tenórunum í upptökunni. Á sömu upptöku heyrðist líka bara í Pétri af bössunum en ég held samt að tónleikagestir hafi fengið blandaðri og betri hljóm.

Talandi um söng. Nú er víst allt kapp á það lagt í leikskólum landsins að afbaka og afskræma gamlar jólavísur. Rétt’upp hönd sem syngur ‘Uppá stól stendur mín kanna.’ Ég skrifaði þetta með annarri þar sem hin höndin var í loftinu. Þetta virðist hinsvegar alls ekki henta þeim sem enga tilfinningu hafa fyrir skáldskap eða kunna með hann að fara. Nú er sungið, hástöfum ‘Uppá hól stend ég og kanna.’ Þetta á víst að lýsa jólasveininum þar sem hann litast um áður en hann heldur niður síðustu brekkuna til byggða. Þetta er glæpur. Auðvitað meikar kanna á stól ekkert sens en það passar og var samið þannig. Punktur. Þetta er frá þeim tíma þegar slíkar samtengingar voru oft í lögum án nokkurrar skírskotunar til efnisins. Dæmi: ‘Fagrar heyrði ég raddirnar úr Niflungaheim. Ég gat ekki sofið fyrir söngvunum þeim.’ Þetta passaði ekkert inn í lagið nema að því leyti að það hljómaði rétt. Ég ætla heldur ekki að tala um þversögn þess að heira fagrar raddir úr þvílíkum heim sem Niflungaheimur á að vera en það er líka ekki málið. Þetta þarf ekki að skilja, bara hljóma og ég er virkilega argur út í fíflin sem eru að skemma þetta.

Hmm... ok, ég get ekki verið mjög argur lengur. Ég gerði smá hlé á skrifunum til að hjálpa til við enn eina húsgagnaflutningana og fann papparúllu. A Cardboard Tube!! Hah! Ef ég væri í bænum mundi ég láta mynd fylgja þessum orðum (Hjörtur, þetta er sketchið þar sem Gabe fann rúlluna “Say it!”). En ég get það ekki. Hún mun samt líklega koma fljótlega og þá að öllum líkindum bara sem tengill inn á kasmír síðuna mína. Svo þegar maður er kominn með eigin rúllu gengur ekki annað en að pósa með hana, taka mynd og setja svo inn á netið. Og engar áhyggjur, ég verð ekki ber að ofan.

:)

tack tack

--Drekafluga, an apprentice of The Cardboard Tube Samurai--

Engin ummæli: