Afi kom heim í gær. Hann er hálf ræflislegur en það er samt gott að hann er kominn. Við bræðurnir bárum hann upp stigann en hann kemst annars um með smá hjálp. Annars varð dagurinn í gær langur. Ég fór ekki að sofa fyrr en klukkan korter yfir fimm (og var svo auðvitað vakinn í morgun) þar sem við Haukur og Einar Kári vorum að spila og var það dúndrandi stuð svo ekki sé meira sagt. Haukur ætlaði í bæinn í morgun en er veðurtepptur og ég með honum. Ég er nefnilega búinn að hjálpa til við tilhleypingarnar (og getiði nú hvað það er) og get þess vegna, fræðilega séð, farið til Reykjavíkur núna. Tæknilega hliðin er bara eitthvað að stríða okkur.
Fyrir utan það er harla lítið sem ég get sagt. Veðrið hér á þessum unaðsreit er farið að versna og nú er frekar blint. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að hér er yfirleitt gott veður þegar óveður geisa á nærliggjandi svæðum. Og ég trúi ekki að ég sé að tala um veðrið. Ef eitthvað er merki um að gæði bloggs fari fyrir ofan garð og neðan þann daginn er það þegar viðkomandi talar um veðrið. Úff, ég er hættur. Farinn að spila.
tack tack
--Drekafluga Frost--
mánudagur, 29. desember 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli