Squalor and Misery No More
Ég er fyrir austan umkringdur blankalogni og skærhvítum snjó. Hér er fallegt. Ég kom austur til að fá sálarfrið, selja pappír og rækjur og jafna mig eftir erfiði gærdagsins. Þá var ég nefnilega að hjálpa Haraldi og fjölskyldu að flytja úr Holtagerði yfir í nýju villuna þeirra í Víðihvammi. Svakalegt hús fyllt af svakalega þungum húsgögnum. Já svo var líka þessi bílfarmur af 6x1 fjölum sem fyllti pallinn á vörubílnum hans Ágústs. Það tók á. Máttvana og eftir mig fór ég svo og heiðraði afmælisbarnið og barðist hetjulega við að halda mér vakandi. Ekki að það hafi verið leiðinlegt. Síður en svo. Svona dagar taka bara þó nokkuð á. Ég braust svo í gegn um varnir Abans sem vildi alls ekki að ég færi og skokkaði heim. Þá var Jón ferðbúinn og ég skaust bara upp og svo út í bíl aftur áður en við héldum af stað. Þetta varð svo til þess að ég gleymdi rækjunum sem ég ætlaði að selja og var því bara með pappír.
Það kom þó ekki að sök þar sem ég seldi samt fjóra poka sem ég kem svo bara með næst. Þetta gekk semsagt stórvel. Ég stoppaði svolítið hjá Séra Axel og hann keypti fyrir 4500kr, borgaði með 5000kr. seðli og sagðist vera að borga mér 500kr. fyrir spjallið. Mér hefur alltaf fundist hann vera frábær náungi. Þegar ég átti eina pakkningu af klósettpappír eftir ákvað ég bara að renna niður í Ásaskóla og athuga hvort Kötu og Stefáni vanhagaði ekki um nokkuð. Þau keyptu rækjur og síðustu pakkninguna. Hófst þá leitin að peningnum.
"Hvar er heftið?" sagði Stefán hugsi.
"Ég man það ekki." svaraði Katrín hreinskilnislega og tók rólega sopa úr kaffibollanum sínum.
"Við vorum með það niðurfrá í gær svo það er annaðhvort í töskunni þinni eða... ...hmm." Þungir þankar Stefáns kæfðu það sem hann hefði annars sagt. Svo gekk hann fram og leitaði að heftinu með tilheyrandi hljóði og látbragði. "Ertu með frelsi á símanum þínum?" heyrðist svo kallað. Ég svaraði því játandi og þá stakk hann höfðinu inn í stofuna og kastaði 2000kr. inneign beint í lófann á mér eins og hann hefði aldrei gert annað. "Þetta eru þá tvö þúsund. Þá eru tvö og fimm eftir." Leitinni að heftinu var haldið áfram en hætti svo skyndilega. "Og hana." heyrðist þegar önnur 2000kr. inneign flaug í áttina að mér, aðeins skakkt í þetta skiptið. "Og svo fimmtíu danskar krónur. Fjögur og fimm."
"Nei... Stefán. Þú getur varla." heyrðist milli hlátraskalla Kötu. "Þetta-"
"Jújú, þetta eru rúmar 500kr. íslenskar."
Ég brosti bara og þakkaði fyrir mig. Nú get ég talað mikið í símann á næstunni. Það verður bara stemmning, er það ekki? =)
tack tack
--Drekafluga, not so poor as before--
sunnudagur, 28. mars 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli