Today is Gateway,
1st day of Winter Deep
Sáuð þið bronsleikinn? Hann er nýbúinn þegar þessi orð eru skrifuð. Mér finnst það algjör óhæfa að Danir verði ekki á ólympíuleikunum. Ótrúlega skemmtilegur handbolti. Ég vildi að þeir hefðu unnið Þjóðverjana og verið að spila um gull en ekki brons. Króatar spila líka skemmtilega en Danir léku sér að þeim. Danski aðalmarkvörðurinn varði svo vel að ákveðið var að skjóta hann niður og fór hann út af með mildan heilahristing. Magnað.
Jarðarförin hjá afa var í gær. Bandið hafði farið úr hjólinu á flaggstönginni og það kom auðvitað í minn hlut að klifra þangað upp í hávaðaroki og þræða aftur. Ég veit að afi fylgdist með mér og brosti. Áður en ég fór í kirkjuna byrgði ég mig upp af pappír og kláraði hann allan (og ekki segja mér að það sé bara best að gráta, hleypa þessu út því ég hef fengið allt of mikið af því undanfarið. haldið því fyrir ykkur sjálf). Það var 12 stiga frost og vindur en þegar við bárum kistuna út og niður garðinn var eins og það lygndi í hjá okkur. Allt í kring slóst vindurinn til og barði niður trén en í kring um hvíta kistuna var bara gola. Friður. Svo lögðum við kistuna frá okkur og vindurinn náði aftur fótfestu.
Þetta var falleg athöfn og ég vildi hafa mína sem líkasta henni. Þegar henni var lokið héldu þessir tæplega 300 manns í erfidrykkju. Þar var mikið borðað og talað og ég táraðist við ræðuna hans Erlings frænda. En svo var söngfólkið beðið um að koma upp á svið. Þetta voru söngfólk í fjölskyldunni og nánir vinir. Ég var einn þeirra. Við sungum fjögur lög og ég hef aldrei upplifað aðrar eins undirtektir. Það voru margir sem sögðust ekki hafa grátið fyrr en í söngnum, svo snortnir voru þeir. Mér fannst líka svo æðislegt, eftir að hafa verið að draga Kvennaskólakórinn áfram að vera ekki nálægt því að vera besti tenórinn. Ekki taka þessu illa, ég er ekki að segja að ég sé besti tenórinn eða ég sé miklu betri en aðrir í kórnum en ég var þarna að syngja með mönnum og konum sem eru sum hver útlærðir óperusöngvarar og hafa flest sungið í 20 - 30 ár. Ég þurfti bara að fylgja og tilfinningin var frábær. En nú ætla ég ekki að skrifa meira. Þetta er ágætt. Um hvað ætti ég svosem að skrifa?
Ég er farinn í sturtu.
--Drekafluga, an apprentice of The Cardboard Tube Samurai--
sunnudagur, 1. febrúar 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli