Stutt færsla í tilefni sunnudags
...og skrifuð í hálfgerðum flýti.
Ég var að koma inn. Hafði farið í matarboð í Ásaskóla og þaðan nokkurn veginn beint upp í fjárhús til að athuga með sauðburð. Engin borin enn. Á leiðinni heim tók ég eftir því að það var hestur sunnan við veginn en eins og hinir átti hann að vera norðan við hann. Við nánari eftirgrennslan sá ég að þetta var Glampi sem stóð þarna hníptur og einmana. Ég náði í mömmu og við komum honum til hjálpar. Hestar, og hann alveg sérstaklega, eru samt greindar skepnur. Hann vissi nákvæmlega hvað til stóð og fór sjálfur um eftir að við höfðum greitt honum götu. Þegar heim var komið fór ég út í fjós til að slökkva á sköfunni ef ske kynni að kvígan tæki upp á því að eignast kálf í nótt og tók svo frá mjólk til að hafa eitthvað út á morgunkornið á morgun (og það vill svo til að þetta ‘eitthvað’ er besta mjólk í heimi). Fyrr í dag var ég svo niðri á Silfurteig, með X-ið í botni og var að plægja.
Á morgun fer ég svo í bæinn og verð allavega eitthvað fram á þriðjudag. Kóræfingar báða dagana og munnlegt þýskupróf (sem einhvern veginn hafði fallið milli hluta) annan daginn. Svo er víst ball. Lokaball. Mér, sem nánast útskrifuðum fjórðubekkjaröldungi finnst það svolítið óþægileg hugsun. Þetta verður síðasta ball sem haldið verður á skólagöngu minni í Kvennó. Og ég er ekki viss um að ég mæti. Hvað er það?! Ég þyrfti nefnilega að koma aftur austur sem fyrst og ballið er svolítil hindrun þar á. Ég hlýt samt að komast á það þó ég kæmi þá ekki aftur hingað fyrr en á miðvikudag. . . Ja sei sei. Þetta er mal. Það er langt síðan ég hef malað hérna. Vonandi verður það ekki að vana.
tack tack
--Drekafluga sveitastrákur--
sunnudagur, 16. maí 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli