A hodudududu
Djöfull. Það liggur við að ég blóti á sænsku. Ég var kominn með uppsafnað efni í hugann og var öruggur með skrifelsi út alla næstu viku. Og svo gleymi ég öllu. Þetta er enn ein sönnun þess að ég ætti að ganga um með lófatölvu. Blað og blýantur mundu sjálfsagt gera sama gagn en ég er pirraður og má láta mig dreyma.
Svo er það líka pressan. Ég fékk þó nokkurt lof fyrir að vera góður penni í síðustu færslu. Nú verð ég að standa undir því með tilheyrandi stælum... ...eða bara beina pressunni annað. Að öðrum ólöstuðum er ég nefnilega með nokkra uppáhalds ritsmiði úr linkalistanum til hægri. Þegar kemur að því að gæða hversdagslýsingar lífi er ein manneskja í uppáhaldi hjá mér, hún Mariatta. Ef ég vil brosa athuga ég hvað Isis eða Brynhildur hafa að segja og ef ég vil finna hugaráskorun, hæðni og pælingar kíki ég til Doktorsins. Hinn eini, sanni Bastarður Víkinga og Undintuska koma svo oft nýjum og ferskum pælingum inn í hausinn á mér. Á óreglulegri hringferð minni um vefrit eru þetta punktar sem ég stoppa iðulega á. Nújá. Þetta varð aðeins ýtarlegra en ég ætlaðist til þar sem þetta var gert í nokkurs konar hálfkæringi en stendur satt engu að síður.
Í síðustu færslu kvartaði ég yfir veðri. Strax sama kvöld var komið logn og sólskin og ég lét þreytuna renna aðeins úr mér í heita pottinum. Umhverfið var gyllt af kvöldsólinni og ef ég drykki bjór hefði ég verið með bjór. Þetta var þannig stemmning. Seinna um kvöldið var ég svo með þreytu í vöðvunum en það var gott. Mér leið vel því ég hafði áorkað einhverju yfir daginn. Ég er nefnilega of latur til að ég hafi gott af því. Slacker. Ég er svo rosalega áhyggjulaus að það jaðrar stundum við veruleikafirringu. Þetta er samt ekki alsæmt því ég hef oft náð að róa aðra í kring um mig, t.d. yfir prófstressi og þess háttar en það er samt ekki þar með sagt að ég hafi nokkuð gott af þessu. Þess vegna er ágætt að koma aftur heim og fá að vinna almennilega. Það gerir manni ekkert nema gott.
Þegar ég pæli í því er það sem ég sakna mest úr Reykjavík, fyrir utan vini, DC++. Ég hef komið inn á þetta áður en vil ítreka það núna. Netsamfélagið á DC er frábært. Bara einstaka CS gerpi sem truflar mann og einn og einn þurs en þar fyrir utan er þetta snilld. Svo veit ég ekki hvar ég verð næsta vetur og þar af leiðandi ekki hvernig tengingu ég verð með. Myndlistaskólinn er ekki búinn að svara og systir mín orðin þreytt á kommúnulífinu og verður glöð að sparka mér út og flytja upp í Breiðholt. Svo ég enda kannski á því að leigja herbergistetur sem er ekki einu sinni með símatengingu en hinsvegar stóran glugga og innstungu sem virkar yfirleitt. Yay. ...
En hvað þetta var nú upplífgandi. Ég læt það duga.
tack tack
--Drekafluga andlausi--
laugardagur, 15. maí 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli