(ég tók út reifhlutann af auðskiljanlegum ástæðum
"Huzzah!" Eins og vélmennið Ben úr Treasure Planet eða Bastarður Víkinga mundu segja. Í gær vaknaði ég klukkan 07:00, fór í fjósið og svo út í skemmu. Áður en lagt var af stað til Reykjavíkur rétti amma mér kort með 10.000kr. og ég táraðist þegar ég las það. Hún skrifar alltaf eitthvað guðsorð og svo hjartfólgna kveðju. Þegar ég svo opnaði öskjuna sem fylgdi fylltust augun af tárum því í henni lágu ermahnappar afa míns. Litlar skeifur úr eðalmálmum með ágröfnu 'G'. Ég var líka með dimmrauða bindið sem hann keypti í Bandaríkjunum árið 1946. Hlaðinn dýrgripum. Dagurinn byrjaði vel.
Ég sofnaði á leiðinni í bæinn og var það vel. Klukkan tólf var ég kominn upp í Hallgrímskirkju og sá þá í fyrsta skipti stúdentshúfuna. Stressið kitlaði létt í magann. Kóræfingin byrjaði skömmu seinna og það kom mér á óvart að þrátt fyrir óþægilegan hljómburð kirkjunnar barst rödd mín skemmtilega þegar við æfðum Banana Boat Song. Okkur fjórðubekkingunum var svo raðað upp og klukkan tvö gengum við tvö og tvö saman inn í kirkju undir glymjandi orgelöskri. Mjög hátíðlegt allt saman. Kórinn átti svo að byrja á því að syngja þrjú lög. Þau gengu misvel og var Amazing (lack of) Grace lang brothættast. Mamiko stóð sig hinsvegar með stakri prýði og ef til vill hefði fólk heyrt í henni ef orgvélin hefði ekki verið svona hávær. Margrét Helga kynnti mig svo fyrir Day-ohið og mér leið ekki svo illa. Fyrsta erindi gekk vel en undir endann missti heilinn samband við lappirnar og þær ákváðu að vera í La Cucaracha fíling. Ég skalf eins og hrísla í vindi. Annað erindi flökti svolítið hjá mér en var ekki of slæmt. Endirinn var svo góður. Þegar ég hneigði mig og fór aftur upp í röðina horfðu mamma og Álfheiður á mig utan úr sal og glottu þegar liturinn kom aftur í andlitið á mér. Allan daginn var svo fólk að koma til mín og þakka mér fyrir sönginn. Sumir sögðust hafa tárast (sem ég skil nú samt eiginlega ekki) og aðrir fengið gæsahúð. Ég get ekki verið annað en sáttur þrátt fyrir augljósa sjálfsgagnrýni.
Við sátum svo í gegnum hinar alræmdu hálf hljóðlausu Ingibjargarræður en tókst (held ég öllum) að halda okkur vakandi og útskrifast. Það er æðisleg tilfinning. Við Himmi vorum í faðmlögum nánast um leið og húfurnar voru settar upp. Ég var stúdent númer 1687 frá Kvennaskólanum. Fimm kórsystur mínar drógu okkur Abann og Heilsufríkina afsíðis og gáfu okkur gjafir. Ég fékk vatnsliti, pensla og rándýran pappír. Ég var í skýjunum. Svo var haldið niður í Kvennó og ég drakk, át og náði í árbókarteikningu. Ég er virkilega ánægður með hvernig til tókst, þrátt fyrir nokkur misföst skot á mig en þau eiga líklega rétt á sér. Þetta verður skannað inn og sett hér upp þegar við fáum árbókina.
Þessu næst fór ég heim í Fellsmúla og svo í stúdentsveislu hjá Höllu þar sem ég var í rúman hálftíma. Ég og systir mín fórum svo sem leið lá að Stokkseyri og á Fjöruborðið. Skömmu eftir að við komum þangað komu Haukur, Kristín og Elías og svo mamma og pabbi á eftir þeim. Við átum svo humar eins og við gátum í okkur látið. Svo hljóðaði matseðillinn: "Humar grillaður í hvítlauk og smjöri, borinn fram í fjörugum félagsskap með grænu salati, kryddlegnum bökuðum kartöflum í hýðinu, kóríander gúrkusalati, kúskús, tómötum og dýrindis sósu. Hungry yet? Þetta var unaðslegt og kvöldið var virkilega fallegt um leið og háværi hópurinn á næsta borði fór burt. Svo fór ég aftur í bæinn og út á Nes (Seltjarnarnes, Cheetah ;)..) og þar í partý til Stebba. Þar var stemmning. Hinsvegar var ekki eins mikil stemmning á Rauða ljóninu og hefur "DJinn" þar hér með verið úrskurðaður réttdræpur. Klukkan að ganga fjögur steig ég svo upp í leigubíl með helst til aðeins of drukknum stúlkum og þegar þær stoppuðu á Select, Bústaðavegi eftir að hafa prúttað um tvær fríar mínútur við bílstjórann ákvað ég bara að ganga heim þaðan. Þær fóru langt yfir tvær mínútur og ég frétti svo í dag að þær hefðu móðgað bílstjórann en á eftir að fá nákvæma sögu þar á. Tuttugu mínútum seinna var ég kominn heim og steinsofnaði um leið og ég skreið upp í, enda búinn að vera úrvinda í fleiri tíma.
---
Tilkynning
Og svo að öðru. Fyrir þá sem lesa þessa síðu vil ég leiðrétta misskilning þó það sé kannski ekkert mitt að gera. Jóna Guðný, jafn frábær og hún er, er ekki dúx skólans. Skólametið var nefnilega tvíslegið. Jóna var með 9.52 sem er vissulega hærra en gamla metið, en eftir að hafa reiknað einkunnir Katrínar Diljár rétt hefur komið í ljós að hún gerði sér lítið fyrir og fékk 9.64. 9.64! Skólametið kolféll sem og vinnubrögð þeirra sem gerðu þessi mistök.
---
Jæja, ég er farinn. Þ.e.a.s. farinn að undirbúa mig og þess háttar. Á morgun tekur Króatía á móti okkur, ég vildi segja björt og fögur en við lendum eftir því sem ég kemst best næst um kvöld. En Ítalía, Slóvenía og Króatía, má ég kynna ykkur fyrir... mér.
tack tack
--Drekafluga--
Engin ummæli:
Skrifa ummæli