föstudagur, 14. maí 2004

El diario del capitán,
Día 05142004


Oubadah! Hér er ömurlegt veður. Eins og það var gott í gær. Mamma kom heim frá London og sem Chouffeur Royale fór ég og náði í hana. Eftir að glerinu sem er hjá komufarþegunum var skipt út fyrir tréverk hefur spennan í biðinni minnkað til muna. Hver man ekki eftir því að annað hvort koma niður rúllustigann og sjá vini eða ættingja bíða eftir manni eða standa hinum megin við glerið og þekkja allt í einu einhvern af þeim sem eru að koma og geta ekki beðið eftir að þeir komist í gegn? Nú er þetta ekki lengur hægt af því að einhver fífl tóku upp á því að smygla og gátu gefið merki í gegn um glerið. Jæja, fyrst svo var komið var ekki annað að gera en bara bíða. Ég fann líka til óþreyjufullrar tilhlökkunnar þar sem ég stóð þarna í Leifsstöð og hugsaði að eftir tvær vikur kæmi ég aftur ásamt fleiri tugum Kvenskælinga og þá yrði gaman.

Það er einhvern veginn ósjálfrátt að maður reynir að halda kúli á meðan maður bíður. Ég var að hlusta á mp3, það er kúl. Svo var það líkamsstaðan. Ég reyndi ýmislegt en gleymdi mér þegar mig var farið að lengja eftir móður minni og endaði uppi á töskukerru, að reyna að halda jafnvægi á tveimur hjólum. “Nei, Gummi, þetta er ekki töff.” seitlaði niður í huga minn rétt áður en ég stökk fimlega af kerrunni og náði enn fimlegar að komast hjá því að lenda á ferðamanni, eldri konu frá Englandi. Ég andvarpaði. Nokkrum mínútum seinna kom mamma og við héldum af stað austur.

Við stoppuðum hjá Hauki í Breiðholtinu þar sem ég kláraði grillmatinn hans og drakk áræðanlega lítra af kóki. Það er aldrei leiðinlegt að borða hjá Hauki. Svo þegar við fórum þaðan heyrðist hvellur, sprenging nánast, í nágrenninu og við veltum fyrir okkur hvað þetta gæti verið. Það kom hinsvegar í ljós innan stundar þegar við keyrðum rétt fram hjá bláum blikkljósum og sáum gult mótorhjól á hliðinni, merkt af með keilum. Rétt áður höfðum við mætt mótorhjóli og ég hafði þá spurt mömmu í gríni hvort ég mætti fá eitt slíkt. Hún hafði svarað neitandi. Ég hef ekki enn séð neitt um þetta í fréttum og vona þess vegna að þetta hafi ekki verið alvarlegt. Í dag stóð ég mig svo að því að vera kominn aðeins frá mótorhjólum og aftur yfir í bílaáhugann. Mig langar í bíl. Ég vil ekki eiga Imprezu (þó það séu ótrúlega skemmtilegir akstursbílar) eða Civic því þá væri ég sjálfkrafa stimplaður Selfyssingur og þar af leiðandi fífl þegar kemur að akstri. Ég keyrði, einu sinni sem oftar, í gegn um Selfoss í gær og, einu sinni sem oftar, fann ég fyrir best geymda leyndarmáli á Selfossi. Þeir eru ekki enn búnir að uppgötva stefnuljós og tilgang þeirra. Þetta er algjört leyndarmál fyrir þeim flestum og þeir fáu sem hafa skilning á þessu leyndarmáli gera allt sem þeir geta til að aðrir komist ekki að því og nota því aldrei stefnuljós. Stefnuljósamafían. Ég held ég hafi aldrei á ævinni séð nokkurn íbúa þarna gefa stefnuljós og hef oft langað að skera á dekkin hjá fíflinu sem svínaði fyrir mann með tilheyrandi stælum. Anda inn, anda út.

Nú, af því ég er kominn í sveitina get ég endað þetta sveitalega og sagt ‘jæja, ég er farinn að brennimerkja’ eða eitthvað álíka. Það verður líklega mikið um slíkar kveðjur í sumar þar sem ég verð á fallegasta stað sem hjarta mitt hefur fundið, sveitinni minni.

Jæja, ég er farinn að brennimerkja...

tack tack

--Drekafluga--

Engin ummæli: