Misjafnir eru manna dómar
Þetta var málshátturinn minn og þessa dagana passar hann bara nokkuð vel. “Manni líður alltaf best eftir kaffi hjá ömmu” væri líka við hæfi. Eftir stutta bæjarferð er ég kominn aftur í friðsældina fyrir austan og er það vel. Fékk mér brauðloku í Pylsuvagninum á Selfossi og síðan pönnukökur, heimabakað brauð og kakó hjá ömmu núna áðan.
Um æðar mér rennur sykur.
Góupáskaegg nr. 6. Ég tek Góu fram yfir Nóa Síríus einfaldlega af því Góueggin eru ekkert síðri. Það er miklu meira inni í þeim og maður fær ekki jafn auðveldlega klígju á súkkulaðinu. Þetta lýsir sér svo í aukinni vellíðan. Þetta egg stökk samt ekki áreynslulaust upp í hendurnar á mér. Ferð mín hófst í Bónus, Kópavogi en þar var ekki eitt páskaegg eftir. Var þá haldið að Smáratorgi en eftir nokkra eftirgrennslan kom í ljós að ekki voru eftir nema nokkur ósúkkulaðiegg frá Mónu. Frekar hefði ég keypt fiskafóður í tilefni páskanna. Lokatilraun var svo gerð í Kringlunni. Ég náði síðasta egginu af þessari stærð og gekk svo aftast í verslunina til að standa í röð, samviskusamlega, jafnvel þó ég ætlaði bara að kaupa eitt páskaegg. En það er viljandi gert að hafa fáa kassa og langar raðir. Þær hlykkjast þá um verslunina og fólk sem ætlaði sér ekki að kaupa annað en, ja t.d. páskaegg, grípur girnilegar og glansandi vörur úr hillunum og endar með fullt fangið. Eða, eins og ég, með páskaegg og snakkpoka. Fjörutíu mínútum seinna var ég kominn fram hjá kassanum og datt niður á hnén með annan lófann á gólfinu, svitastorkinn og móður eftir stimpingarnar í röðinni. Ja, eða ég hugsaði mér hvernig það væri. Þetta var ekki svo slæmt. Á undan mér í röðinni voru tvær spænskar vinkonur og hafði ég afar gaman að athugasemdum þeirra um hina ýmsu hluti þarna í kring. Svo gekk Eddie Izzard – New Queue í höfðinu á mér. “Look over there, isn’t that a badger with a gun?” Gaman bara.
Eftir stutt stopp heima kom Hjörtur svo á Reapernum (nýja rauða Micran hans) og við borðuðum Kebab og gerðum grín að okkur óæðri sem, þegar við komumst í þennan gír, virðast vera felstir í kring um okkur. Eftir stopp á videoleigu var svo haft aðsetur í Fellsmúla 6 og Sexie skellt í tækið. Eddie Izzard átti góða spretti en, eins og Frambjóðandi nr. 1 var búinn að benda mér á, hefur hann oft verið betri. En til að enda þetta rétt höfðum við líka leigt How to Irritate People með John Cleese í fararbroddi. Það var yndislegt áhorfs og er nú komið inn á tölvunna og bíður þess eins að vera breytt í DivX form. Ég fékk svo heimsókn frá hluta af kór crewinu (það er mjög erfitt að gera þetta svalt) eftir að Hjörtur fór og við sofnuðum svo útfrá spjalli og eintómum notalegum rólegheitum.
Já... Jæja.
Afmælisfagnaðurinn fór siðsamlega fram. Ég hafði það feitletrað þegar ég bað fólk að láta vita ef það kæmi ekki. Arna gerði það. Takk Arna. Sjö manns gerðu það hinsvegar ekki. Þeim verður því úthýst úr tjaldpartýinu í sumar. Svo gisti enginn. Alls ekki slæmt, fólk þurfti að vinna daginn eftir og þvíumlíkt og þetta var bara rólegt og skemmtilegt. Það var reyndar strjált í heita pottinum þar sem við vorum þar fimm þegar best lét og allt strákar. Púðagengið hefur víða ítök (heh, einkahúmor) Þetta er orðið gott, ég þarf að... ...umm... ...gera ekkert.
tack tack
--súkkulaðihúðuð Drekafluga--
sunnudagur, 11. apríl 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli