Þá er komið að því. Nú skal ég sveitalegur verða
Þar sem ég sit hér í loftlausu herbergi, eftir mig eftir að hafa meðtekið hluta af snilligáfu Douglas Adams, vil ég koma eftirfarandi á framfæri:
Kæru bekkjarfélagar (ykkur hin hundsa ég af óhagganlegri skyldurækni. Annað partý.),
Ykkur er hér með tilkynnt heimboð að Ásum í Gnúpverjahreppi, næsta föstudag þar sem boðið verður upp á síðdegiskaffi klukkan 15:30, eftirstandandi sönnun þess að fólk hafði engan smekk á veggfóðri fyrir 30 árum, ferskt loft og kvöldmat í boði hússins. Einnig er sundlaug dulbúin sem heitur pottur og útihús á staðnum og nóg gistipláss fyrir þá sem vilja veita mér þann heiður að gista.
Í kaffinu verða tertur og brauð og heitt súkkulaði með rjóma, alvöru mjólk, beint úr tankinum (hitastig 3,4°C) og annað slíkt. Um kvöldið verður lambasteik a lá Mamá með öllu tilheyrandi. Eftirmatur verður fyrir þá sem ekki verða afvelta, ís og ferskir ávextir með vanillurjóma.
Til að orða þetta á mannamáli:
Bekkjarpartý hjá Gumma á föstudaginn langa (eins og þið séuð að gera eitthvað annað. pff...) frá þrjúleytinu fram á laugardagsmorgun. Komið með sundföt og svefnpoka (og auðvitað það sem þið viljið, þess utan). Ef einhver sér sér ekki fært að mæta er viðkomandi vinsamlegast beðinn að láta vita ekki seinna en á fimmtudaginn.
Jæja, þar sem ég á heima úti á landi er hér stutt leiðarlýsing: Keyrt er frá Reykjavík í gegn um Selfoss og svo beygt til vinstri inn á Skeið rétt eftir að hafa farið fram hjá Bitru og áður en komið er að löngu aflíðandi hægri beygjunni að nýju Þjórsárbrúnni. Svo er haldið áfram þar til komið er fram hjá Skálholtsafleggjara en þá er beygt til hægri inn í Gnúpverjahrepp. Þar er haldið áfram þar til, rétt eftir að hafa farið fram hjá Árnesi, beygt er til vinstri inn á malarveg (og þá eru bara rúmir 4 km eftir). Þar er svo hægt að skoða skilti eða hringja í mig í örvæntingu. Þess má geta að eftir um 100 metra keyrslu á malarveginum sést heim til mín.
Ásar í Gnúpverjahreppi hafa verið í eigu sömu ættar síðan 1906 en þá flutti hingað langalangafi minn, Sveinn Einarsson og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir frá Setbergi við Hafnarfjörð (hún hefði betur átt Setbergið áfram sú gamla, þá væri ég sterkefnaður). Þessi stutta ættarsaga var í boði móður minnar.
tack tack
--Drekafluga, í sveitasælunni--
þriðjudagur, 6. apríl 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli