föstudagur, 30. júlí 2004

Sagan af Bjarna Fúskara

Ég:
Rödd Jóhanns Sigurðarsonar þegar hann las fyrir Shan Yu inn á Mulan, líkami Brad Pitt upp á sitt besta.
Bjarni Fúskari: Rödd Bullwinkle úr Rocky & Bullwinkle, líkami Joe Pesci.

Ég var að yfirfara varnir heimilisins í nyrðra varnarbyrginu þegar ég varð var við umferð á hlaðinu. Andartaki seinna kom boðliði hlaupandi inn og tilkynnti mér að viðgarðarmaðurinn væri kominn. Boðliðinn var eitthvað hikandi þannig að ég spurði nánar út í aðkomumanninn. ‘Hann... hann er á Hondu Civic, herra.’ Ég spenntist upp og ískaldur hrollur skreið niður bakið á mér. Selfyssingur, hugsaði ég, þetta verður langur dagur. Boðliðinn hélt hurðinni opinni og hristi höfuðið dapur í bragði. Jæja, best að klára þetta, hugsaði ég og gekk út. Jú jú, það stóðst, á hlaðinu stóð grá Honda Civic og við hana stóð lítill þybbinn maður með aflitað hár. Áður enn hann opnaði munninn sá ég að hann hlyti að vera með óþægilega rödd.

BF: Sæll, Bjarni heiti ég. Þið eruð með bilaða tölvu hérna tísti hann eiturhress. Þetta var fullyrðing, ekki spurning.
Ég: Já. Það var nú einmitt þess vegna sem hringt var á viðgerðarmann.
BF: Jájá, það passar, er hún bara hér inni kannski eða..?
Ég: Já, sagði ég kuldalega og gekk á eftir honum inn. Um leið og hann kom inn í skrifstofuna tók hann andköf.
BF: Jahá? Hér hefur verið nóg að gera. Hann átti við opna tölvukassana og íhlutina sem lágu um allt.
Ég: Já, ég var að reyna að útiloka vélbúnaðarvandræð-
BF: Uss, það er aldrei hægt að útiloka vandræði, þú veist hvað á ég við? greip hann fram í og sparkaði í einn kassann.
Ég: Já, sagði ég þó ég hefði ekki nokkurn vott af hugmynd um hvað hann meinti.
BF: Ha?
Ég: Já.
BF: Ha?
Ég: Já. Ég veit hvað þú átt við, sagði ég á hraða sem ég hélt að Selfyssingur ætti að meðtaka.
BF: Jájá, er þetta tölvan? Hann benti á tölvuna sem var greinilega hvað heillegust og ennþá greinilegar sú eina sem var tengd.
Ég: Já, andvarpaði ég og velti því fyrir mér í hverju ég væri lentur.
Hann byrjaði svo á því að reyna kveikja á tölvunni en það hafði þveröfug áhrif þar sem það hafði verið kveikt á henni fyrir. Hann kveikti á henni aftur og eftir að hafa fiktað í engu sem ég sá að skipti máli slökkti hann og fiktaði því næst í tölvukassanum sjálfum. Þar reyndi hann til að mynda að tengja Ata kapal í floppy drifið með þeirri meiningu að drifið væri harður diskur. Hann lagði því næst til að við nýttum eitthvað af vinnsluminninu úr annari gömlu tölvunni og hefði sjálfsagt reynt að troða því í minnisraufarnar á virku tölvunni ef ég hefði ekki ítrekað sagt honum að kortin og þar með raufarnar væru gjörólíkar milli tölva. Með minni hjálp tengdi hann harðan disk sem ég átti í tölvuna, kveikti á henni og fór í biosið þar sem hann eyddi heilmiklum tíma í að stilla klukkuna og skoða hluti eins og Pci tengingar sem er nokkuð skrýtið í ljósi þess að Pci raufarnar voru ekki í notkun (fyrir utan eina sem geymdi hljóðkortið) heldur Isa og Agp raufarnar. Hann fékk sér svo sígarettu og reif og tætti stundur og saman í tölvukassanum á meðan tölvan var í gangi og var rétt búinn að skemma móðurborðstengingar með öfugum eða vitlausum ísetningartilraunum. Ég bað hann að hafa mig afsakaðan, náði í kjötsax og myrti Bjarna viðgerðarmann svo með köldu blóði.

Endir

Þetta er ekki alveg nákvæmt. Hann var á Hondu Acura en ekki Civic. Og ég drap hann ekki, já, en mikið langaði mig það. Hann náði loks að koma kerfinu í lag en það var með herkjum. Ég vona að ég þurfi aldrei að sjá þennan mann framar því þá neyðist ég til að setja eitthvað þungt framan í hann.

tack tack

--Drekafluga, venting--

Engin ummæli: