mánudagur, 28. apríl 2008

List- og fagurfræði

Ferskur um morguninn fór hann
í fræðilegt próf og sat.
Síðar upp svo stóð hann
og stundi 'Ég gat hvað ég gat'.
G.V.V.

Ég veit. Ofstuðlun í þriðju línu. Mér er bara alveg sama. Nú er ég
búinn og á bara eftir að setja upp vorsýningu og svoleiðis stúss.

tack tack

--Drekafluga, alls enginn listfræðingur--

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Gleðilegt sumar

Áfram bílstjórar, löggan beitti óþarfa valdi, steinkastarinn er hálfviti, sá sem kýldi lögreglumanninn líka o.s.frv. Ég hef hinsvegar um annað að hugsa. Framundan er eitt listasögupróf, samantekt í skólanum og uppsetning á vorsýningu. Ég er búinn að skila lokaverkefninu og þó ég eigi ekki von á að fá mjög hátt fyrir það þá er ég frekar sáttur. Ég er tilbúinn til að standa undir þeirri einkunn sem ég fæ (svo fremi að hún fari ekki undir 7 því þá skil ég þetta ekki). ...það lítur semsagt út fyrir að ég sé tilbúinn til að fá 7. Hér fyrir neðan má sjá lokaverkefnismyndir. Hægt er að smella á hverja og eina mynd til að sjá hana stærri. Þess má einnig geta að neðstu tvær myndirnar eru ekki af verkefninu heldur að lukkuálfi hönnunardeildarinnar og mömmu hennar. Ég vil þakka Stefáni Má sérstaklega fyrir myndavélarlán. Ég hefði ekki náð svona góðum myndum án þess að vera með hans vél.

Einhverra hluta vegna þá hleðst síðan misjafnlega upp og botninn dettur svo að segja út. Þ.e.a.s. síðan nær ekki utan um allt sem á henni stendur. Þar sem þetta er með eindæmum löng færsla og því hætta á að þetta gerist vil ég benda lesendun á að refresh (F5) lagar þetta nánast undantekningarlaust.

Verkefnið fólst í því að nemendur áttu að kynna tónleika að eigin vali fyrir almenningi. Í því skyni átti að gera veggspjald, bækling og boðskort eða gjöf handa velunnurum. Ég valdi mér flottustu sinfóníutónleika sem ég gat hugsað mér og afraksturinn er eftirfarandi.


Ok, hér er ég að leggja frumdrög að lokahönd á bæklingnum.



Einbeitingarsvipurinn farinn og ég gat klórað mér í kinninni.


Og Gunnþóra heimtaði bros, annars yrðu engar myndir teknar.


Súkkulaðið sem minnir mig alltaf á Einar Kára. Gaf mér orku.


Boðskortið fullgert. Það þurfti ekki að komast í gegnum bréfalúgu. Ég spurði.


Boðskortið opið. Í miðjunni var miniDVD diskur með lögum hljómsveitanna.


Bæklingurinn lokaður. Leðrið hafði togast til og því sést í teppalímbandið.


Svona leit þetta út á stallinum hjá mér. Voða látlaust fannst mér.


Bæklingurinn hálfopinn. Toppurinn var tekinn af og hver hlið lögð niður.


Bæklingurinn sést hér opinn til fulls. Hver hlið opnaðist um sjálfa sig.


Hér var innri dagskráin. Mér fannst fólk vera frekar hrifið af henni.


Þarna stend ég og reyni að gera grein fyrir því hvern fjandann ég var að spá.


Svona leit plakatið út.


Þetta er svo Guðrún af 2. ári með dóttur sína.


Og hér eru þær aftur. Ég varð að setja þessar myndir inn líka.



tack tack

--Drekafluga, skæðasti gormur norðan alpafjalla. Le ha, le ha, le ha!--

laugardagur, 19. apríl 2008

Það eina sem ég man

var að ég var að keyra einhvert, Doddi sat í farþegasætinu og var alltaf að halla sér yfir til mín og núllstilla kílómetramælinn. Þetta fór ferlega í taugarnar á mér því hvernig ætti ég nú að haga mér næst þegar ég tæki bensín? Ég er ekki viss um að skýring á þessu finnist í draumráðningarbókum svo ykkur er velkomið að túlka þetta á þann hátt sem þið viljið.

tack tack

--dreymin Drekafluga--

mánudagur, 14. apríl 2008

Bókband

Ég er að gera lokaverkefni fyrsta árs í hönnuninni. Sem hluta af því þarf mér þarf að detta í hug sniðugur bæklingur, ekki tvíbrotið A4 blað því það er leiðinlegt. Ég á í vandræðum með að þrengja mig að einhverri hönnun, er með of margar og óljósar hugmyndir og það fer í taugarnar á mér. Ég held það hjálpi að skrifa um þetta, jafnvel þó ég skrifi ekki beint um bæklinginn. Og það virkar. Núna, með smá naflaskoðun er ég búinn að segja mér að hugmyndirnar séu of margar og óljósar en ég held að ég hafi ekki verið með það beint á hreinu áður.

Af hverju er ég þá ekki duglegri að skrifa á síðuna, heyri ég ykkur spyrja. Jú, því ég vil ekki vera leiðinlegur. Mig grunar að hugsanir mínar séu, þó að ég hafi gaman af þeim, oft leiðinlegar. Ég mundi halda dagbók en ætli það sé ekki einhver hégómi sem hindrar mig. Ég nenni ekki að skrifa bara fyrir sjálfan mig.

tack tack

--Drekafluga skríður í rétta átt--

miðvikudagur, 9. apríl 2008

MC Frontalot

Fyrir ekki löngu síðan uppgötvaði ég nýja tónlistarstefnu. Þar snúast textar til dæmis um spunaspil, tölvuleiki, mismunandi brúarspan eftir byggingartýpum, aspergers, netklám, Magic the Gathering og aðra nördalega hluti. Fremstur meðal jafningja er MC Frontalot en það var hann sem gaf þessari tónlistarbylgju nafn sitt. Nerdcore hip hop. Ég auðvitað kollféll fyrir þessu undir eins og mæli með The Front við hvaða nörd sem er.

Crime Spree (fan video)


Which MC Was That (fan video)


It's Pitch Dark (official video)


tack tack

--Drekafluga, eaten by a grue on a crime spree--

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Í dag

er góður dagur til að vera bangsi. Ég væri alveg til í að fá rafmagnsbíl í afmælisgjöf. Ok, ég geri bara lista með hinu og þessu. Eirðarlausir milljónamæringar sem lesið þetta, þið megið bara velja eitthvað úr honum. Sumt af þessu er algjörlega viðráðanlegt. =)

Tesla Roadster
Fisker Karma

Wacom Cintiq 21UX
Wacom Cintiq 20WSX
Skullcandy MFM Pro
Smart Roadster Brabus
Canvas Utility Bag
Nerf Maverick
Eclipse II LED Backlit Keyboard (in red please)
Plusdeck 2c
Sonic Impact Soundpads
Corepad Deskpad
Einnig þætti mér vænt um heimsóknir og væntumþykju hverskonar (fallegar hugsanir meðtaldar).

tack tack

--Drekafluga sem hálflangar í köku--

miðvikudagur, 2. apríl 2008

Ok, gjeggjað!

Þetta er allt að koma. Þegar við Gunnþóra flytjum svo aftur til Reykjavíkur verður gengið kannski hagstætt til kaupa á hinu eða þessu sem mætti nýta þessa þjónustu til. Dældað (groovy). Ég hef horft löngunaraugum á rafmagnsbíla í þó nokkurn tíma og byrjaði það allt með fyrsta Zytek tilraunabílnum sem var á sínum tíma byggður á uppáhalds bílnum mínum, Lotus Elise. Tesla Roadster er líka byggður á Elise grindinni en er bara ekki eins fallegur. Svo er ég enn að bíða eftir að almennilegir rafmagnsbílar verði á almennilegu verði. Þetta kemur vonandi allt. Ég er allavega alveg tilbúinn að skipta úr bensíninu.

tack tack

--Drekafluga sem lengi hefur dreymt um rafmagnsferðaskjóta--