Það rímar við jukk
Ég hef nú verið netklukkaður af tveimur manneskjum og ætla því að hafa nokkur orð um nákvæmlega ekki neitt. Við lestur á nýjustu færslu Haraldar komst ég að því að við erum um margt líkir og verður allavega einn eftirfarandi liður nokkurn veginn sá sami og hjá honum. Staðreyndir:
1. Ég hef tvisvar farið í augnháralitun og damn hvað ég var sexy. Ég fór bara í klippingu á sama tíma í bæði skiptin þannig að fólk tók bara óbeint eftir þessu. Í staðinn fyrir "Ó þú armi öfuguggi!" fékk ég "Ó þú lítur vel út í dag." Kærastan mín plokkar svo stöku sinnum á mér augabrúnirnar.
2. Ég er sóðalegur snyrtipinni. Ég þoli ekki óreiðu nema kannski ef hún er mín. Halla hefur áræðanlega eytt samanlagt sólarhring af ævi sinni í að gera grín að því hvernig ég raðaði öllu upp á skólaborðið mitt. Samt er ég afskaplega óskipulagður.
3. Besti vinur minn þegar ég var lítill var hundur. Hann hét Tryggur og fylgdi mér í leikskólann (sem vildi til að var fyrir neðan brekkuna hjá mér). Hann lét mér alltaf líða betur ef mér leið illa og mér fannst við skilja hver annan. Ég sakna hans stundum enn í dag.
4. Svo ég segi þetta orðrétt eins og Haraldur: Ég tárast oft yfir bíómyndum. Tilvitnun lýkur. Mér liggur við að segja að ég sé grátgjarn yfir bíómyndum. Og þó. Stundum þarf ég samt að einbeita mér að því að gráta ekki. Ég gæti komið með langan lista með 'Ég grét yfir' myndum en tel enga þörf á því.
5. Ég hef keyrt á mann. Já. Það er satt. Ég held ég hafi verið 17 ára og var að ná í vini mína á ball á Hellu. Það var haldið í stóru tjaldi, umkringdu tjaldbúðum fyrir utan bæinn svo ég beygði inn malarveginn og í áttina að tjöldunum. Þetta var hálfgerður útihátíðarfílingur. Fólk var á rölti með flöskur í hönd og það var almennt bara nokkur gleði á svæðinu. Svo kom á móti mér bíll. Ökumaður þessa bíls gat ekki fyrir sitt litla líf hugsað sér að lækka ljósin, sama hvað ég reyndi að gefa til kynna; fyrst að ég sæi ekki neitt, svo að ég sæi ennþá ekki neitt og loks að hann væri vangefið lítið erkigerpi. Rétt áður en við mættumst gekk svo yfir veginn ölvaður ungur piltur og þar sem blindir ættu ekki að stjórna ökutækjum negldi ég niður of seint, hann rúllaði þokkalítið yfir húddið, beygði spegilinn og lenti með dynk við hliðina á bílstjórahurðinni. Ég var ekki á meiri hraða en svona 15 en þetta var samt óþægilegt fyrir okkur báða. Einmitt þá stoppaði bíllinn sem kom á móti við hliðina á mér og ökumannsrúðan var skrúfuð niður. Bíllinn var af gerðinni Ford Econoline, hvítur að öðru leyti en lögreglumerkingum. Í náfölt andlitið á mér horfðu tvö yfirlætisfull augu og rödd sem ég get bara talið hafa komið frá sama andliti og horfði á mig, þó ég sæi varirnar ekki hreyfast, sagði: "Er ekki allt í lagi hér?" Náunginn sem hafði kynnst stuðaranum mínum svo náið spratt upp eins og stálfjöður og svaraði. "Jú maður. Við erum félagar. Viltu sjúss?" Vinur fórnarlambsins kom svo aðvífandi, álíka ölvaður og bauð líka. Lögregluþjónninn virtist taka smá stund í að gera upp við sig hvort hann ætti að eyða tíma í þetta, eða þiggja sjúss, en tautaði eitthvað, skrúfaði svo upp rúðuna og hélt áfram. "Jæja félagi, þú skuldar okkur nú. Bjargað frá löggunni." Þeir gáfu hvor öðrum five og fannst nokkuð flott að annar þeirra skuli hafa lent í ákeyrslu. Karlalegt. "Umm, já. Má bjóða ykkur far einhvert? Voruð þið á leiðinni upp að tjaldi?" Það var stutt þögn áður en þeir sögðu með gleði að ég færi líka fullur og stukku upp í bílinn. Ég rétti spegilinn, skutlaði þeim upp að tjaldi og allt fór vel að lokum.
Þannig var nú það. Rétt eins og Doktorinn þá klukka ég engan.
tack tack
--Aðeins afhjúpaðri Drekafluga--
mánudagur, 26. september 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli