Maðurinn sem ég hef litið upp til og fylgt síðan ég man eftir mér ákvað að skilja við þessa veröld. Allar sögurnar og öll viskan sem bjó á bak við fallegustu og bláustu augu sem ég þekki er orðin að minningu. Ef afi minn var fyrirmynd mín, má þá ekki segja að ég sé nokkurs konar eftirmynd hans?
Stærsta hrós í lífi mínu var líkega þegar mér var sagt að ég minnti á afa minn, bæði í vexti og útliti. Ég hljóp strax til afa og sagði honum þetta og ég veit ekki hvor okkar var ánægðari. Við vorum báðir hálf klökkir. Ég vona að það sé sannleikur í þessu og að Guð gefi að ég eldist jafn vel og afi. Ég verð þá kannski stökkvandi ofan af heystabba, nokkura metra fall, niður í vagn fyrir neðan til að troða betur í hann. Ég gleymi aldrei svipnum á vini mínum þegar hann sá þetta gert fyrst af þessum gamla góðlega manni. Hann gekk ákveðnum skrefum að stiganum, vippaði sér upp þannig að honum yngri menn hefðu átt erfitt með að fylgja eftir, sveiflaði svo skeranum af áratuga þekkingu og reynslu og var búinn að fylla vagninn aftur á svipstundu, raulandi allan tímann.
Við vinnu hlífði hann yfirleitt verkfærunum en tók sjálfur á sig þá byrði sem þurfti að bera. Eitt af því sem fór hvað mest í taugarnar á honum var þegar verkfæri sem hann hafði oftar en ekki smíðað að mestu leyti sjálfur voru brotin. Þá var eins gott að standa kyrr og fylgjast með því þegar hann sýndi manni hvernig ætti að bera sig að. Stundum töldu þeir ungu sig vita betur en næstum alltaf sáu þeir að sér og sáu að það var margt til í því sem afi sagði.
Hann fékk 10 fyrir dugnað á Hvanneyri og má hver sem vill reyna að leika það eftir. En þrátt fyrir það treysti hann ekki eingöngu á sjálfan sig heldur var hann mjög nýjungagjarn og framsækinn í hugsun en svo notaði hann auðvitað sínar aðferðir með það. Þegar verið var að bakka með stóra vagna var hann ætíð til hliðar að segja til og gaf bendingar í höfuðáttunum. ”Austar, aðeins austar. ‘Ettergott!” Áður en við vissum af var öll yngri deildin búin að taka þetta upp eftir honum.
Mér finnst eins og það sé ekkert sem hægt sé að skrifa sem lýsir afa vel. Hann gat allt og vissi allt. Þegar ég kom heim úr skólanum, grátandi yfir að eiga ekki borðtennisspaða eins og hinir fór hann út í skemmu og kom stuttu síðar með heimagerðann spaða handa mér. Ég grét af gleði.
Ég á alltaf eftir að sakna hans þó hann eigi alltaf eftir að vera hjá mér. Við eigum eftir að hittast aftur og þá munum við syngja saman. Einhvern tíman.
Guðmundur Valur Viðarsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli