Föstudagurinn 13. Spúkíspúkí. Ég hef lengi ætlað að skrifa en hef aldrei vitað um hvað Ég veit það reyndar ekki ennþá en ég segi bara fokk það og held ótrauður áfram. Í morgun var mannhæðarhár skafl ofan á bílnum mínum. Í stað bílsins var þriggja metra há snjóhrúga, nokkurn veginn svona í laginu og fór ört stækkandi. Eftir að hafa fórnað hendinni í að dusta aðeins frá falsinu á dyrunum opnaði ég farþegamegin til að losna við að sitja í snjósæti. Gladdist yfir því að ég væri í réttum bíl, teygði mig yfir, setti í hlutlausan, lykilinn í og bílinn í gang, blásturinn á fullt, hitann í afturrúðuna, náði í sköfuna og háði svo stórfenglega orustu við snjóinn, öskur og allt. Spólaði síðan upp af bílastæðinu, fór upp Stóragerði, út Smáagerði og niður Háaleitisbraut. Þar var ég á eftir bíl sem virtist vera á ískappakstursdekkjum því honum tókst að stöðva svo snögglega á punktinum að það mætti teljast heilsuspillandi. Ég dró djúpt andann, lyfti hægri fæti, setti upp skelfingarsvip og negldi niður æpandi viðeigandi fúkyrði [lesist: S j i i i i i i i i i i t t!]. Það voru góðir 15 - 20 metrar í bílinn, ég fór ekki hratt og ég hefði beygt fram hjá honum ef ekki hefði verið fyrir þriðja bílinn sem fylgdi við hlið mér nánast alla bremsuvegalengdina. Svo stöðvaðist ég óþægilega, en samt ekki of harkalega aftan á bílnum vel skóaða. Ég bakkaði metra og stökk út. Karlinn í bílnum fór líka út og við rýndum álkulegir á fram- og afturstuðara. Hann: "Slapp þetta ekki?" Ég: "Jú ég held það." Hann: "Ok." Það sást skráma á hvorugum bíl. Svo hristum við okkur og fórum inn í bíl. Ég sagði honum svo að hundskast yfir í sinn bíl svo við kæmumst eitthvað áfram. 10 mínútum seinna var ég kominn í vinnuna þar sem hápunktur dagsins var tilurð ferskeytlu. Svo fór ég heim og sneyddi fram hjá helstu umferðartöfum eftir að hafa eytt korteri að komast upp að Suðurlandsbraut. Svo henti ég kókflösku út í skafl til kælingar, skrifaði þessa færslu og nú er ég að fara að spila The Chronicles of Riddick en það er einmitt leikur vikunnar hjá, ja, mér. Hú ha! Ekki var þetta mikið mál.
tack tack
--Drekafluga shiny eyes--
Engin ummæli:
Skrifa ummæli