Clio litli er veikur. Ég hef aðstoðað mág minn við að laga hann síðustu tvö kvöld og hann átti að hafa náð sér seint í gærkvöldi. Svo var hins vegar ekki. Ég verð semsagt að láta franska eðalvagninn renna í gang þar sem startarinn virðist nú vera illa farinn og úr lagi genginn eftir 13 ára notkun hjá rallakandi ellilífeyrisþega og svo ljúfa 9 mánaða meðferð hjá undirrituðum og kærustu. Ég fór samt á honum í vinnuna í morgun. Lagði á bílastæðinu við Borgartún 30, en þar er á að giska 0,8% halli. Ræsitilraunir klukkan rúmlega fimm enduðu þannig að ég ýtti bílnum skáhalt upp bílastæðið og lét hann svo renna í gang aftur á bak. Það gekk ágætlega. Það var hins vegar verra að drepa á bílnum í kæruleysi á vinstri akrein Kringlumýrarbrautarinnar, nokkra metra frá Háaleitisbraut. Ég var ráðalaus. Ökumenn tóku ekki eftir hazard ljósunum fyrr en þeir voru komnir að mér svo ég gat ekki fært bílinn á nokkurn hátt. Ákvað þess vegna að bíða til svona hálf tólf þegar umferðin yrði minni. Fólk fór fram fyrir mig báðum megin en ég freistaði þess þó, eftir svona 10 mínútna kyrrstöðu að mjaka bílnum yfir á beygjuakreinina vinstra megin við mig. Vegna óhóflegs magns hálfvita reyndist þetta erfitt. En allt í einu birti yfir, fínstilltir barnakórar sungu og skítugur Suzuki Sidekick, hóflega breyttur, rann upp grasið sem aðskildi akreinarnar. Ljóshærður strákur, í kring um tvítugt og að því er virtist nýlega skriðinn undan vélarhlíf eigin bíls, stökk út og skokkaði til mín. Hann spurði lítillega út í vandræði mín og svo hvað ég vildi gera. Hálfri mínútu seinna vorum við Clio komnir hálfir upp á grasið. Strákurinn ýtti svo á eftir bílnum niður brekkuna og hann rauk í gang eftir fáeina metra. Ég fór út og tók í höndina á honum, brosandi hringinn. "Ég þoli ekki þegar fólk bara flautar og keyrir fram hjá." sagði hann og hvarf ásamt kórunum og fallega tónuðu ljósaskýi. Stundum bætir einn öðlingur upp fyrir þúsund hálfvita.
tack tack
--þreytt en þakklát Drekafluga--
Engin ummæli:
Skrifa ummæli