laugardagur, 14. maí 2005

Íslendingar

Tillits- og samviskulaus kvikindi sem mundu ekki lyfta fingri til að bjarga ömmu sinni frá tveimur 8 ára ræningjum vopnuðum engu nema banana. Ræflar og aumingjar upp til hópa án nokkurs votts af náungakærleik. Á þessu eru þó undantekningar. Í gær fékk ég far að Selfossi með móðurbróður mínum, indælis náunga. Þar keypti ég miða með rútunni að Reykjavík. Á meðan ég beið eftir rútunni fór ég á KFC þar sem fyrrverandi bekkjarsystir mín afgreiddi mig. Hún er líka indæl. Ég át svo popcorn kjúkling og teiknaði. Fyrrverandi bekkjarbróðir minn, fínn náungi, kom síðan aðvífandi og settist við borðið með mér. Gípur hér niður í samtal okkar.

"...búinn að vera að tala við náunga í Englandi því álagninginn á þessum hlutum er fáránleg."
"Já, láttu mig þekkja það."
"Allavega... hmm, ég held að þetta sé rútan mín. Ég ætti að fara að koma mér." Þegar hér var komið leit ég á úrið mitt og ályktaði að ég hefði 6 mínútur til að fara út af KFC og ganga þessa 20 metra að rútunni.
"Já, ekki láta mig tefja þig."
"Alls ekki," sagði ég og stóð upp "þetta er ekk..." í stað þess að segja 'ert mál' þagði ég og horfði á rútuna keyra burt. "Hvað er klukkan þín?" sagði ég svo með nokkuri undrun í röddinni.
"Mín er tólf mínútur yfir og hún er þremur mínútum of fljót."
"Þetta hélt ég." tautaði ég og leit aftur á klukkuna mína. Hún var níu mínútur yfir fjögur. "Rútan átti að fara korter yfir. Ég er veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að taka þessu." bætti ég svo við í gegn um hláturrokur vinar míns.
"Ég hef ekki tíma til að skutla þér til Reykjavíkur.."
"Nei, auðvitað, enda ætla ég ekki að biðja um það. Gætirðu kannski hent mér út yfir brú?"
"Já, ekkert mál."

Ég settist svo upp í jeppaskrímsli þessa vinar míns og hann keyrði sem leið lá yfir Ölfusárbrúna og að hringtorginu hjá Toyota Selfossi. Þar steig ég út úr bílnum með tilheyrandi þökkum, lyfti upp þumalfingri og gekk af stað. Fólk hlaut jú að taka mig upp í í svona rigningu og ísköldum vindi. Kílómetra síðar var ég farinn að efast um það ásamt ágæti þessarar þjóðar. Ég var ekki vel klæddur, enda var þetta ekki hluti af ferðaplaninu og var orðinn blautur og kaldur þegar ég kom aftur að Toyotahúsinu og hringdi í Gunnþóru. Hún varð bjargvættur minn og keyrði í gegn um Hvítasunnuumferðina til að bjarga hinum blauta og kalda mér frá áræðanlegum og kvalarfullum dauðdaga. Takk Gunnþóra. Allir þið sem keyrðuð fram hjá mér í hálftómum bílum, ég vona að þið eigið ömurlega helgi.

tack tack

--Drekafluga í Reykjavík--

Engin ummæli: