miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Ekki bara í tærnar

Af og til fæ ég innilokunarkennd. Og stundum hugsa ég þá hvort ég sé einn um þetta. Til útskýringar þá er rétt að minnast á að ég er ekki að tala um óþægilega tilfinningu í litlu rými. Ég fæ innilokunarkennd í sjálfum mér. Áðan kom ég heim og var varla búinn að loka á eftir mér dyrunum þegar ég þurfti að rífa mig úr fötunum þar til ég stóð á nærbuxunum einum saman (stundum fara þær líka). Ég bara varð að taka þessa þyngd af mér, þá sérstaklega allt fyrir ofan mitti, enda líður mér miklu betur núna. Ég get fengið innilokunarkennd í tærnar líka og verð þá að vera berfættur eða í víðu, þægilegu og mjúku inniskónum mínum þar sem ég get "dillað" tánum. Það er reyndar algengara en hitt og ég veit að bróðir minn á við það sama að etja. Er ég bara jafnskrýtinn eða meira skrýtinn en ég held?

tack tack

--Drekafluga, léttklæddur með frjálsar tær--

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Vizione di Europa

Ojæja, þetta er svosem ekki alslæmt. Sigur Eurobandsins er Páli Óskari að þakka. Hann færði textann yfir á ensku og endurútsetti lagið og þvílíkur munur! Það er samt sem áður of Eurovisionlegt fyrir minn smekk og fellur allt of vel inn í hópinn. Friðrik Ómar fær þó loksins sitt.

Hvaða draugur var það svo sem tók að sér bakraddir hjá Mercedes Club?! Rebekka, söngkona bandsins stóð óstyrkum fótum fyrir en bakröddin sló allt út. Var það þessi ljóshærða gella sem hékk með þeim? Hún má þá alveg snúa sér að bútasaumi og hætta að halda að hún geti sungið. Þetta varð væntanlega til þess að fólk hætti við að kjósa lagið og því fór sem fór.

Dr. Spock!!! Mig langaði jafn mikið að þeir ynnu og mig langaði að Botnleðja tæki þetta á sínum tíma. Klárlega langbesta lagið (að mínu mati, auðvitað), skemmtilegasta sviðsframkoman og flutningurinn pottþéttur. Þvílík synd og skömm að kjósa nokkuð fram yfir það.

Nú hef ég einhvern tíman skrifað um hvað mér finnst Evróvision afstyrmislegt orð. Arfaslöpp hálfíslenskun. Af hverju var þá ákveðið að fara á akkúrat hinn pólinn með Eurobandið? Ætti það ekki að heita Evróbandið?

tack tack

--Dr. Drekafluga Spock--

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Já en krakkar mínir, þetta er ekki fótboltaleikur

Í fótbolta, sem og íþróttum almennt, leggur dómari mat á atburði innan vallarins hverja sekúndu fyrir sig. Þetta mat er gert út frá fyrirfram ákveðnum reglum en er þó alltaf persónubundið og misjafnt frá dómara til dómara, eins og dæmin sanna og er almennt talið hluti af leiknum. Þetta hér er hins vegar allt annað mál og ekki er hægt að líkja þessu tvennu saman. Þarna er verið að spyrja um blákaldar staðreyndir og persónulegt mat dómara á hvort svör séu rétt eða röng á ekki við. Það sem ekki er rétt, er rangt og öfugt. Dómari í Gettu Betur stekkur ekki til og gefur gult spjald sem áhorfendur skiptust svo í tvo hópa um, hvort það hafi átt rétt á sér eða ekki. Dómari í Gettu Betur stendur í raun fyrir utan keppnina sjálfa. Hann hefði bara átt að vinna heimavinnuna sína betur. Ég hefði skrifað um þetta fyrr en ég er veikur.

Treebeard: "A wizard should know better."

tack tack

--Drekafluga, fullur réttlætiskenndar--

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Mmph... *hóst* ...ick

Ímyndið ykkur að Magnús Ver Magnússon gangi á eftir ykkur heilan morgun, haldi báðum höndum um höfuð ykkar og þrýsti stöðugt að. Þolanlegt? Ok. En fyrst tróð hann ígulkeri í hálsinn á ykkur og sílikonkíttaði nef og kinnholur. Þar er ég kominn yfir mörkin. Þett'er ömurlegt.

tack tack

--Drekafluga, hausverkaður--

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Skullcandy

Sá hörmulegi atburður hefur nú gerst að Sennheiser HD 200 heyrnartólin mín eru hætt að virka. Allt í einu, og án nokkurs tilefnis, dó allt hljóð fyrst öðrum megin og svo hinum megin. Eftir ítarlegar prófanir hefur komið í ljós að vandamálið liggur ekki í snúrunni en hún er útskiptanleg. Innvols heyrnartólanna sjálfra er á einhvern hátt slitið og þykir mér það afskaplega miður því þetta eru bestu heyrnartól sem ég hef átt. Ég örvænti þó ekki því að ég er búinn að finna draumagræjurnar (zomg!w00t!w00t!). Það skal enginn segja mér að þetta sé ekki ótrúlega girnilegt.

tack tack

--hlustandi Drekafluga--

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Samt sem áður...

Að vissu leyti er ég samt feginn af því mér stendur stuggur af Gísla Marteini og Hönnu Birnu. Vilhjálmur er illskástur af sjálfstæðismönnunum í borginni og ef hann hefði sagt af sér mundi fólk hugsa: "Já þetta var stórmannlegt. Sökudólgurinn gaf sig fram og dró sig út úr stjórn. Þau hin eru bara alveg ágæt." ...eða svo gott sem. Ég gat ekki fest niður þessar hugsanir fyrr en Gunnþóra tók stutta rétt-fyrir-svefninn úttekt á þessu. Það borgar sig að eiga klára kærustu. Mér finnst annars alveg mega ganga frekar á Dag og félaga, eins og mamma minntist á í umsögnunum við síðustu færslu.

tack tack

--Drekafluga spökúlerar--

mánudagur, 11. febrúar 2008

Pólitík á íslenska margkveðna vísu

"Ég er að axla ábyrgð. Fólk axlar ábyrgð með ýmsum hætti." sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sem ákvað jafnframt að halda sínu striki, víkja ekki sæti og mun án minnsta vafa verða borgarstjóri þegar líða fer á kjörtímabilið. Það að axla ábyrgð í íslenskum stjórnmálum felst í því hversu mikla þvermóðsku og þrákelkni viðkomandi hefur við að sitja sem fastast og loka augum og eyrum við öllu. Vel gert.

tack tack

--Drekafluga, ekki vitund hissa--

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Nunnur og minkar

Stundum langar mig svo að vera með Moggablogg. Ég hef svo oft eitthvað út á að setja eða til málanna að leggja. Ég held bara að ég mundi týnast innan um alla hina. Verða eins. Ég þoli ekki að vera eins. En stundum langar mig bara til að hlæja. Eins og núna. Ætli þeir séu ekki hræddir við að vera veiddir vegna feldsins, greyin.



tack tack

--Drekafluga, hæstánægður með mbl.is--