fimmtudagur, 20. desember 2007

Ég er með sæluverk í fótunum

Hvílík unaðstilfinning. Ég er kominn í jólafrí. Reykjavík, ég sé þig á morgun. Þess má einnig geta að ég hef ekki haft nokkurn einasta tíma til annars í jólakortagerðinni en að kaupa frímerkin og vil ég því biðja fólk um að móðgast ekki þótt það fái ekki jólakort en gleðjast þeim mun meira við síðbúið janúar- eða jafnvel febrúarkort.

tack tack

--Drekafluga að pakka--

föstudagur, 14. desember 2007

1/6 grafískur hönnuður

Í lokaprófið áttum við að koma með blýant og skæri. Við fengum 1stk A4 160g glanspappír, áttum að gera verk úr honum, teikna mynd með verkinu og skrifa texta. Þetta er það sem ég gerði.

(van)Helgun

Árið 2002 stóð ungur maður agndofa inni í rjóðri í frumskógi í norðurhluta Guatemala. Hann var staddur í Tikal og átti eftir að vera snortinn yfir því sem hann sá þennan dag ævilangt. Fyrir framan hann og allt í kring risu tilkomumiklir pýramídar, hver öðrum voldugri. Ungi maðurinn stóð og horfði og horfði og horfði. Stuttu síðar hafði ísköld og óþægileg tilfinning gripið hann. Hann hafði gengið inn í einn pýramídann og fyllst hryllingi þegar hann sá að á hverjum einasta fleti var búið að klóra og rispa veggina. Ferðamenn hvaðanæfa að úr heiminum höfðu komið þangað og þeir höfðu ekki fengið sömu tilfinningu og ungi maðurinn. Í stað þess að fyllast lotningu fannst þeim rétt að láta þá sem á eftir þeim kæmu vita að þeir hefðu verið þarna líka. Mjúkur kalksteinninn lét auðveldlega undan ágangi fólksins og eftir stóð ljótasta form veggjakrots á ómetanlegum veggjum. Og ungi maðurinn sá hvað þeir voru viðkvæmir. Eins og pappír...





tack tack

--Drekafluga, búinn í skólanum--

miðvikudagur, 12. desember 2007

Mismunun jólasveina

Ég fékk ekkert í skóinn og samt hef ég verið svo afskaplega þægur. Ég held að þeir horfi framhjá einstæðingum og leitist við að gleðja fjölskyldur. Gunnþóra er í Reykjavík og ég er einn á Akureyri. Og ég fékk ekkert í skóinn. Ég á þó súkkulaðidagatal.

tack tack

--Drekafluga í inniskóm--

QI 1x03:
Stephen Fry - "What do you think is the largest thing a blue whale can swallow?"
Bill Bailey - "Is is a conceptual question, the blue whale, a very vain animal; perhaps the largest thing it has to swallow is it's pride."

sunnudagur, 9. desember 2007

Bob, Bobb... Bop... Pfbob (með þöglu 'pf')..?

Hér að neðan má sjá Bobb borð. Eða Bop eða Bob eða hvað það nú heitir. Og það er einmitt vandamálið. Mig langar afskaplega að smíða mér svona borð en finn hvergi nokkuð um stærð og hlutföll sökum þess að ég veit ekki að hverju ég á að leita. Því spyr ég: veit einhver hvað þetta heitir, sama á hvaða tungumáli, eða hvernig borðið er að stærð? Ég gat ekki einu sinni fundið mynd af þessu á netinu, hvað þá texta eða leikreglur. Ég varð að gera þessa mynd sjálfur. Mig langar að smíða borðið í svolítilli yfirstærð. Þetta er afskaplega skemmtilegur leikur. Tveir leikmenn spila, hvor á móti öðrum og hvorum um sig er úthlutað litaðar skífur til að skjóta í holurnar. Við hvert skot er svartri skífu stillt upp á línu þess leikmanns og er hún notuð til að slá skífur þess leikmanns ofan í holurnar við hinn enda borðsins. Ég veit um eitt svona borð en að því er ekki greiður aðgangur auk þess sem það er bólgið og skælt sökum margra ára raka. Það bætir að vísu nýrri vídd í leikinn að þurfa að hugsa um hallann í hverju skoti, eins og þegar á að setja pútt í golfi en ég vil samt byrja á að smíða slétt borð.



tack tack

--leitandi Drekafluga--

QI 4x07:
Stephen Fry - "What is the similarity between herring and teenage boys?"
Dara O'Briain - "They're both a delicacy in Norway."

þriðjudagur, 4. desember 2007

Skotta

Ætli það sé viljandi að strikamerkjaskannar geti ekki með nokkru móti lesið strikamerkið á DVD disknum um lesblindu? Ætli þetta sé líka gert af heilum hug eða eru feministar gagngert að reyna að fá alla á móti sér? Auk þess finnst mér jafn fáránleg hugmynd vera móðgun við hundinn minn. Hún heitir Skotta.

tack tack

--Drekafluga spekúlerar--