mánudagur, 22. október 2007

Síðan 21. október 2002

Í gær héldum við Gunnþóra upp á fimm ára afmæli okkar saman. Það eru reyndar þessir 10 - 11 mánuðir sem hún var úti í Brasilíu og ég hér heima en við teljum það ekki með. Það er bara of leiðinlegt reikningsdæmi að draga það frá og fá út nýja dagsetningu og nýjan tíma. Svo fimm ár. Það er skemmtileg tilviljun en mamma og pabbi hittu hvort annað þegar þau voru 17 og 19 ára gömul, alveg eins og við Gunnþóra. Við erum svakalega fullorðin. Til að halda upp á þetta átum við indverskan í sparifötunum og við kertaljós. Það er að segja, við vorum í sparifötunum og átum mat eldaðan á indverska vísu. Það lá ekki spariklæddur indverji undir hnífapörum okkar. Það varð eiginlega eins og á jólunum. Gunnþóra er fallegasta stelpa í heimi og ég trúi vart upp á hvern einasta dag hversu heppinn ég er. Og hananú. Það má hver sem er vita það.

tack tack

--hamingjusöm Drekafluga--

Engin ummæli: