föstudagur, 27. apríl 2007

CTA!

Það rýkur úr stríðshrjáðum vellinum. Ókleifir veggir hringleikahússins rísa brattir í kring. Skýin flýta sér yfir drungalegan næturhimininn, eins og þau séu að keppast um að sjá til okkar. Ýta hvert öðru frá. Við höfum verið að í tvo daga. Sviti og storknað blóð mynda kunnuglega slikju um okkur alla. Við erum orðnir vanir sviðanum í augum okkar, tökum ekki eftir honum lengur. Við stöndum við suðurenda vallarins, fimm saman, og horfum út að miðju. Þar, höggvið í jörðina, stendur öxi. Hún er ekki stór og lætur ekki sérlega mikið yfir sér en hún er órjúfanlegur hluti af okkar æðsta takmarki. Af enda hennar blaktir rauður borði í andvaranum. Hvort sem hann var rauður upphaflega eða hefur litast af blóði ótölulegra stríðsmanna veit enginn lengur. Handan við öxina sjáum við andstæðinga okkar, jafnþreytta en jafnákveðna og okkur. Áhorfendurnir í kring eru flestir farnir til síns heima, búnir að fá nóg. Nokkrir eru þó eftir hér og þar á bekkjunum til að sjá þá bestu. Trumbuslátturinn byrjar aftur, hægt en taktfast og þögnin er rofin. Fingur herðast um sverð og skildi og við komum okkur fyrir. Á jörðinni fyrir aftan okkur liggur risavaxinn kringlóttur skjöldur. Við stígum öðrum fæti á hann, tökum okkur stöðu og horfum fram á við. Trumbuslátturinn magnast, slær nú í takt við hjörtu okkar og næstu andartök líða ofurhratt og löturhægt í senn. Lúðraþytur. Við hlaupum af stað.

-- -- --

Í gær, á skemmtilegustu æfingu sem ég hef farið á fórum við í víkingaútgáfuna af Capture the Flag. Við hvorn enda vallarins liggur skjöldur og hver liðsmaður í hvoru liði verður að standa á honum þegar blásið er til leiks. Á miðju vallarins liggur öxi. Markmið leiksins er að ná öxinni og slá henni í skjöld andstæðingsins. Þetta er held ég einhver skemmtilegasti leikur sem ég veit um og ef hann verður aftur á næstu æfingu þá get ekki beðið.

tack tack

--Drekafluga víkingur--

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Dang it!


Ég skaut mig í fótinn í síðustu færslu. Í hvert skipti sem ég lít á síðuna fæ ég lagið á heilann. Þess vegna verð ég að skrifa eitthvað nýtt hérna svo síðasta færsla gangi hratt niður síðuna og hverfi að lokum. Ég get til að mynda talað um þessar elskur en eins og sjá má eru þetta ofursætir kettlingar. Þeir eru uppi í hesthúsi fyrir austan og eru hver öðrum fallegri. Ég fer austur um næstu helgi. Langar einhvern með? ;)

Og að lokum, skemmtilegt quote sem ég rakst á í gær. "Those who think they know everything are annoying to those of us who do"

tack tack

--Drekafluga fyrir dýrin--

mánudagur, 23. apríl 2007

Dreams? Nightmares, rather

Ég er með fjandans lagið úr fjandans Hilary Duff myndinni sem var fyrir helgi svoleiðis límt á heilann. Blessunarlega sá ég ekki nema lokaatriðið en það var nóg. Ég stóð mig að því að blístra laglínuna við "Hey now, hey noooow, this is what dreeeeeeaaaams are made of" og finnst ég vera veikgeðja. Djöfull.

tack tack

--föl Drekafluga--

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Est Sularus oth Mithas

My honor (mínus 'u' því þetta er bandarískt) is my life. Ég var að sjá að það er verið að gera teiknimynd upp úr bókinni sem leiddi mig inn á braut fantasy bókmennta. Kiefer Sutherland er þar meðal leikenda en með hlutverk uppáhalds persónunnar minnar fer Jason Marsden. Ég hef ekki minnstu hugmynd um hver sá maður er en hlakka samt til að heyra í honum. Í öðrum fréttum þá er ég með smá hausverk. Fjandans.


“Was it something I said? Whatever it was, I didn’t mean it. I haven’t meant anything I’ve said for years. Except what I just said. I think.”— Kender er æðislegur kynþáttur.

tack tack

--fantasy Drekafluga--

miðvikudagur, 4. apríl 2007

Hast du wirklich an alles gedacht?

Ég var að horfa á trailerinn að Open Water 2. Á þýsku. Sagan er á þessa leið: Ungmenni með raddir úr samhengi við varahreyfingar fara á snekkju, drekka og skemmta sér úti á ballarhafi. Þau stökkva svo í sjóinn en í leik sínum athuga þau ekki að þau komast ekki á snekkjuna aftur ef þau eru öll í sjónum því borðið á snekkjunni er svo hátt. Þau verða því að láta þarna fyrirberast og auðvitað laða þau að sér nokkra hákarla með hræðslu sinni. Sú hákarlategund sem að þeim hefði líklegast komið er Oceanic White Tip (ég hef ódauðlega ást á National Geographic og Discovery) en ég sá ekki hvort þeirri staðreynd var fylgt eftir. Hitt er svo annað mál að það gæti varla talist verkfræðiafrek að ná þessa tæpa tvo metra upp fyrir vatnsborðið og í borðið á snekkjunni. Þarna voru sterklegir karlar og mjóslegnar konur, eins og lög gera jú ráð fyrir í þýskutalsettum Hollywood b-myndum. Það ætti ekki að vera of mikið mál fyrir allt þetta fólk að velja skankalengstu konuna og lyfta henni upp. Tveir karlmenn træðu marvaða upp við snekkjuna, hvor á móti öðrum og á milli þeirra væri tilvonandi bjargvættur þeirra. Um leið og þeir lyftu henni upp mundu aðrir svo hjálpa til við að koma henni eins hátt og auðið væri. Ekki flókið. Svo nei, þeir hugsuðu ekki út í allt, en titill færslunnar er fengið úr þessum trailer. Þessir Þjóðverjar...

tack tack

--Drekafluga, kominn í páskafrí--

mánudagur, 2. apríl 2007

Takk

Mig langar að vera frumlegur og djúpur. Mig langar að koma með svo góða punkta og opna augu fólks með eldheitri sannfæringu. En ég er bara svo feginn. Ég get ekkert sagt sem lýsir því hversu feginn ég er að útjaðar Hafnarfjarðar verður ekki undirlagt af mökkspúandi skrýmsli og Þjórsá mín er óhult í bili. Takk 6.382 Hafnfirðingar. Ég er ykkur ævinlega þakklátur.

tack tack

--Drekafluga, að jafna sig í hjartanu--